„Við munum vinna Ísland“

Fatih Terim er afar vongóður fyrir leikinn gegn Íslandi á …
Fatih Terim er afar vongóður fyrir leikinn gegn Íslandi á morgun. AFP

Fatih Terim, þjálfari tyrkneska landsliðsins í knattspyrnu, er viss um að lið hans muni vinna íslenska landsliðið er þjóðirnar etja kappi í lokaleik þeirra í undankeppni Evrópumótsins á morgun.

Íslenska liðið tryggði sig inn á Evrópumótið sem fer fram í Frakklandi í síðasta mánuði er liðið gerði markalaust jafntefli við Kasakstan á Laugardalsvelli en karlalandsliðið mun leika á sínu fyrsta stórmóti í Frakklandi á næsta ári.

Tyrkland er aftur á móti í góðri stöðu í 3. sæti riðilsins sem gefur umspilssæti en liðið er tveimur stigum á undan hollenska landsliðinu sem situr í 4. sæti riðilsins. Tyrkir þurfa að ná í það minnsta í stig á morgun en Holland mætir Tékkum.

Terim er vongóður fyrir leik liðsins en hann telur að tyrkneska liðið nái að knýja fram sigur í Konya.

„Tyrkland mun vinna þennan leik. Við munum berjast til sigurs og því tel ég að það lið sem komi til með að standa uppi sem sigurvegari á morgun verði tyrkneska liðið,“ sagði Terim við Daily Sabah Football.

„Við byrjuðum þessa undankeppni á tapi gegn Íslandi en þrátt fyrir að við höfum átt bæði góða og slæma daga í henni þá hefur okkur alltaf tekist að halda okkur í inn í keppninni. Við höfum sýnt mikinn karakter og aldrei gefist upp. Við höfum ekki bara unnið nokkra leiki heldur höfum við einnig uppgötvað nýjar stjörnur,“ sagði Terim að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert