Martröð Hollendinga heldur áfram

Robin van Persie skoraði fyrir bæði liðin í kvöld.
Robin van Persie skoraði fyrir bæði liðin í kvöld. AFP

Tékkland sigraði Holland, 3:2, í A-riðli undankeppni EM í kvöld í lokaumferð riðlakeppninnar. Hollendingar verða því ekki á meðal þátttökuþjóða á Evrópumótinu í Frakklandi næsta sumar en þeir urðu að vinna til að eiga möguleika á því að komast í umspil um sæti á EM.

Þetta verður því í fyrsta skipti í 32 ár sem Hollendingar eru ekki með í lokakeppni EM.

Pavel Kaderábek kom gestunum frá Tékklandi yfir á 24. mínútu og Josef Sural bætti öðru marki við á 35. mínútu. Varnarmaður Tékka, Marek Suchý, var rekinn af leikvelli á 43. mínútu og það gaf Hollendingum smá von.

Tékkar bættu þriðja markinu við í síðari hálfleik, þrátt fyrir að vera manni færri. Hollenski sóknarmaðurinn Robin van Persie varð þá fyrir því óláni að setja knöttinn í eigið net.  

Klaas Jan Huntelaar og Robin van Persie klóruðu í bakkann fyrir Hollendinga sem náðu þó ekki að jafna leikinn, lokastaðan 3:2 fyrir Tékkland. Tékkar enda í efsta sæti A-riðils, tveimur stigum á undan Íslendingum.

Í sama riðli sigraði Kasakstan Lettland 1:0 í Lettlandi og komst þar með upp í 5. sæti riðilsins. Úrslitin í þeim leik þýða að Tyrkir fara beint á EM sem það lið sem var með besta árangurinn í þriðja sæti undankeppninnar.

Lokastaðan í A-riðli

1. Tékkland 22 stig
2. Ísland 20 stig
3. Tyrkland 18 stig
4. Holland 13 stig
5. Kasakstan 5 stig
6. Lettland 5 stig

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert