Skilur ekki treyjuskipti í leikhléi

Dybala er hér í baráttu við Martín Demichelis í kvöld.
Dybala er hér í baráttu við Martín Demichelis í kvöld. AFP

Fyrrverandi knattspyrnustjórinn og núverandi sérfræðingur, Harry Redknapp, er ekki hrifinn af því að leikmenn skipti um treyjur í hálfleik á leikjum. Í leik Juventus og Manchester City í Meistaradeild Evrópu í kvöld átti slíkt atvik sér stað og Redknapp var ekki skemmt.

Yaya Touré, leikmaður City, og Paulo Dybala, leikmaður Juventus, skiptu um treyjur þegar liðin gengu til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik í kvöld. Redknapp spurði þá: „Gæti fólk séð Winnie Jones fyrir sér að skipta um treyju?“

Redknapp var sérfræðingur á bresku stöðinni BT í kvöld þar sem hann tjáði sig um þetta. Með honum var fyrrverandi leikmaður Manchester-liðanna beggja, Owen Hargreaves. Hann sagði að Touré gæti ekki neitaði Dybala um treyjuna, enda hefði leikmaður Juventus lengi litið upp til Touré.

Redknapp var alls ekki sammála Hargreaves hvað þetta varðaði. „Persónulega er ég ekki hrifinn af því að menn séu að gera þetta í leikhléinu. Mín vegna mega menn skipta um treyjur að leik loknum.“

Juventus sigraði City 1:0 og er komið áfram í 16-liða úrslit. City tekur á móti Gladbach í lokaumferð riðlakeppninnar og dugir þar jafntefli til að tryggja sér áframhaldandi þátttöku í Meistaradeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert