United mistókst að tryggja sig áfram

Það var sannkallað markaregn í kvöld þegar fimmtu umferð Meistaradeildar Evrópu lauk í kvöld með sex leikjum. Sjö mörk voru skoruð í Úkraínu og fimm mörk í Svíþjóð og í Þýskalandi. Samtals voru 20 mörk skoruð í leikjunum sem er nýlokið.

Ekkert mark var þó skorað í leik Manchester United og PSV á Old Trafford. Áhorfendur bauluðu á lærisveina Lous van Gaal þegar dómari leiksins flautaði til leiksloka. United var meira með boltann en skapaði sér fá góð færi. Fyrir lokaumferðina er Wolfsburg efst í B-riðli með 9 stig, United með 8 og PSV 7. 

Real Madrid og PSG eru komin áfram úr A-riðli en þau sigruðu andstæðinga sína í kvöld. PSG slátraði Malmö 5:0 í endurkomu Zlatans til Malmö. Real lenti í meiri vandræðum með Shaktar Donetsk. Madrídingar komust reyndar í 4:0 en heimamenn minnkuðu muninn í eitt mark og það hefur líklega farið um Madrídinga, lokatölur í þeim leik 4:3.

Atlético Madrid tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum með öruggum 2:0 sigri á Galatasaray í kvöld. Úrslitin þýða að Benfica er einnig komið áfram úr C-riðlinum en Portúgalarnir gerðu 2:2 jafntefli við Astana fyrr í dag. 

Þá sigraði Juventus Manchester City 1:0 á Ítalíu og tryggði sér áframhald í keppninni. Manchester City tekur á móti Gladbach í lokaleik umferðarinnar og nægir jafntefli til að tryggja sér áframhaldandi þátttöku.

Fylgst var með gangi mála í öll­um leikj­um kvölds­ins hér á mbl.is.

Úrslit kvöldsins:

Shaktar Donetsk - Real Madrid 3:4
Malmö - PSG 0:5
Manchester United - PSV 0:0
Atlético - Galatasaray 2:0
Juventus - Manchester City 1:0
Gladbach - Sevilla 4:2

21.37 Leikj­un­um er lokið. Mörkunum rigndi inn á flestum völlum, nema á Old Trafford.

21.36 Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 4:2. Banega minnkar muninn fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu.

21.31 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 3:4. Teixeira minnkar muninn í eitt mark! Hann fær boltann í miðjum teignum og setur hann snyrtilega í hornið. Gerist hið ótrúlega hér? Real var fjórum mörkum yfir rétt áðan!

21.30 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 2:4. Dentinho minnkar muninn eftir hornspyrnu.

21.29. Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 4:1. Stindl klárar þetta fyrir heimamenn og slekkur vonarneista Sevilla með sínu öðru marki.

21.27 Mark í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:5. PSG fær aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Lucas Moura tekur spyrnuna og skorar frábært mark, yfir vegginn. Algjört burst hjá PSG gegn Malmö.

21.26 Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 3:1. Spánverjarnir minnka muninn. Vitolo afgreiðir boltann snyrtilega í netið eftir ágæta sendingu. Spurning hvort þetta sé ekki of lítið og of seint fyrir Sevilla.

21.23 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 1:4. Teixeira skorar úr vítaspyrnu fyrir heimamenn. Sárabót fyrir heimamenn.

21.22 Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 3:0. Heimamenn að ganga frá leiknum gegn Sevilla. Raffael fær boltann í miðjum vítateignum og rennir honum undir Rico, markvörð Sevilla.

21.16 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 0:4. Ronaldo skorar annað mark sitt í kvöld, eftir aðra stoðsendingu frá Bale. Ronaldo setur boltann reyndar fyrst í varnarmann en fær boltann aftur og skorar þá af öryggi. Bale og Ronaldo fallast í faðma, enda gengur vel hjá þeim félögum í kvöld.

21.14 Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 2:0. Fabian Johnson fær boltann vinstra megin í teignum. Hann ákveður að taka upp smjörhnífinn og smyr boltann listilega í fjærhornið. Virkilega fallegt mark.

21.13 Mark í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:4. Di María skorar annað mark sitt í kvöld. Argentínumaðurinn fær boltann á miðjunni, leggur hann út á Maxwell og brunar inn í vítateiginn þar sem hann fær sendinguna frá Maxwell og stangar boltann af öryggi í markið.

21.11 Mark á Spáni! Atlético Madrid - Galatasaray 2:0. Antonie Griezman skorar annað mark sitt í þessum leik. Hann fær sendingu frá Gabi og stendur einn fyrir framan opið mark á markteig og skorar af öryggi. Færið vissulega ekki það erfiðasta en markið mikilvægt.

21.07 Vítaspyrna misnotuð í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:3. Malmö fær vítaspyrnu eftir að brotið var á Djurdjic. Rosenberg fór á punktinn og virtist gera allt rétt en boltinn small í stönginni. Óheppnir heimamenn!

20.58 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 0:3. Carvajal, hægri bakvörður Real, fær boltann utarlega hægra megin í vítateignum. Hann virðist ekki vita hvað skal gera við boltann en ákveður að smella honum í fjærhornið. Fallegt mark!

20.55 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 0:2. Ronaldo geysist upp hægri kantinn og kemur boltanum á Modric. Króatinn knái og smái þrumar boltanum í markið. Madridingar á góðri leið í Úkraínu.

20.54 Mark í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:3. Zlatan að klára leikinn fyrir Frakkana og skorar auðvitað fyrir framan sína stuðningsmenn frá Malmö. Zlatan fær boltann í þröngu færi en sætur boltann í fjærhornið. Wiland í marki Malmö er með hönd á boltanum en nær ekki að verja, á líklega að gera betur.

20.47 Síðari hálfleik­ur er haf­inn. Leik­irn­ir eru að fara í gang á ný einn af öðrum.

20.33 Hálfleik­ur. Nú er verið að flauta til hálfleiks í öll­um sex leikj­un­um. Það er líf og fjör í öllum leikjunum, nema ef til vill á Old Trafford. Stöðuna í leikjum kvöldsins má sjá hér að ofan.

20.18 Mark í Þýskalandi! Gladbach - Sevilla 1:0. Stindl að koma Gladbach yfir gegn Sevilla. Xhaka reyndi skot af löngu færi en Stindl stýrði boltanum í netið af markteignum.

20.09 Mark á Ítalíu! Juventus - Manchester City 1:0. „Íslandsvinurinn“ Mario Mandzukic kemur heimamönnum yfir. Patrice Evra sendir boltann fyrir markið frá vinstri kanti og Króatinn skorar. Hann virðist þó brjóta á varnarmanni City í leiðinni en ekkert er dæmt og Mandzukic er alsæll.

20.05 Mark í Úkraínu! Shaktar - Real Madrid 0:1. Ronaldo brosir sínu breiðasta eftir að hafa skallað boltann í markið. Gareth Bale vippar boltanum yfir markvörð Shaktar og Ronaldo skallar boltann af öryggi í autt markið.

20.01 Mark í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:2. Ángel Di María kemur gestunum í 2:0. Hann fær boltann rétt við vítapunktinn og rúllar honum í markið, stöng og inn. Gestirnir frá París í góðum málum.

20.00 Mark á Spáni! Atlético Madrid - Galatasaray 1:0. Antonie Griezman kemur heimamönnum yfir með fallegum skalla eftir sendingu frá Gabi af hægri kantinum.

19.50 Mark í Svíþjóð! Malmö - PSG 0:1. Adrian Rabiot kemur gestunum úr PSG í 1:0 gegn Malmö. Þetta tók ekki langan tíma! Rabiot stangaði boltann í netið eftir sendingu frá Gregory van der Wiel.

19.45 Leik­irn­ir eru hafn­ir.

19.12 Tveimur leikjum er lokið í dag. Astana og Benfica skildu jöfn, 2:2, í C-riðli. Úrslitin þýða að Atlético Madrid tryggir sér, og Benfica, sæti í 16-liða úrslitum með sigri á Galatasaray. Þá sigraði Wolfsburg CSKA Moskvu, 2:0, í B-riðli. Wolfsburg er á toppi riðilsins með 9 stig en Manchester United kemst í 10 stig, og tryggir sér sæti í 16-liða úrslitum, með sigri á PSV.

19.00 Byrj­un­arliðin eru klár og má sjá hér að neðan.

Shaktar Donetsk: Pyatov, Ordets, Rakitskiy, Azevedo, Stepanenko, Fred, Bernard, Marlos, Kobin, Alex Teixeira, Gladkiy.
Real Madrid: 
Casilla, Carvajal, Pepe, Varane, Nacho, Casemiro, Modric, Kovacic, Isco, Bale, Ronaldo.

Malmö: Wiland, Konate, Tinnerholm, Bengtsson, Brorsson, Lewicki, Adu, Rodić, Rosenberg, Berget, Djurdjic.
PSG: 
Trapp, Thiago Silva, Marquinhos, Maxwell, van der Wiel, Thiago Motta, Di María, Matuidi, Rabiot, Cavani, Ibrahimovic.

Manchester United: De Gea, Darmian, Smalling, Rojo, Blind, Schweinsteiger, Schneiderlin, Lingard, Rooney, Memphis, Martial.
PSV: Zoet, Moreno, Arias, Bruma, Brenet, Hendrix, Pröpper, Guardado, De Jong, Narsingh, Locadia.

Atlético: Oblak, Godín, Filipe Luís, Gámez, Giménez, Tiago, Koke, Griezmann, Gabi, Torres, Carrasco.
Galatasaray: Muslera, Sabri, Semih, Chedjou, Hakan, Denayer, Jem Paul, Bilal, Sneijder, Yasin, Podolski.

Juventus: Buffon, Barzagli, Bonucci, Chiellini, Lichtsteiner, Sturaro, Marchisio, Pogba, Alex Sandro, Mandzukic, Dybala.
Manchester City: Hart, Sagna, Demichelis, Otamendi, Clichy, Fernando, Fernandinho, Toure, Navas, De Bruyne, Aguero.

Gladbach: Sommer, Christensen, Wendt, Johnson, Korb, Nordtveit, Dahoud, Stindl, Traoré, Xhaka, Raffael.
Sevilla: Rico, Trémoulinas, Rami, Kolodziejczak, Coke, Krychowiak, Krohn-Dehli, Banega, Vitolo, Konoplyanka, Gameiro.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert