Uppskrift Zlatans að fullkomnu kvöldi

Zlatan situr á bolta á æfingu í Malmö.
Zlatan situr á bolta á æfingu í Malmö. AFP

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic hlakkar mikið til að snúa aftur til Malmö. Zlatan, og samherjar hans í franska liðinu PSG, sækja Malmö heim í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Kvöldið verður fullkomið ef við vinnum, ég skora þrennu og áhorfendur syngja nafn mitt að leik loknum,“ sagði Svíinn kokhrausti í aðdraganda leiksins.

Zlatan, sem er 34 ára, ólst upp í Malmö og lék með liðinu þar til hann gekk til liðs við Ajax þegar hann var tvítugur. Síðan þá hefur hann einnig leikið með Juventus, Inter, Barcelona, AC Milan og PSG.

Hann hefur aldrei leikið keppnisleik gegn uppeldisfélaginu og spennan er því mikil. Þegar dregið var í riðlakeppnina var hann fljótur að bóka stærsta torgið (Stortorget) í Malmö en þar verður leikur kvöldsins sýndur á stórum skjá. 

„Ég hringdi beint í Malmö um leið og það var dregið og sagði þeim að bóka Stortorget. Ég vil að allir hafi tækifæri til að sjá leikinn. Þetta verður sérstakt augnablik“ sagði Zlatan.

PSG er í öðru sæti í A-riðli með sjö stig en sigur í kvöld tryggir liðinu sæti í 16-liða úrslitum. Malmö er í þriðja sæti með þrjú stig og þurfa nauðsynlega á sigri að halda í baráttunni um að komast upp úr riðlinum. 

Íslenski landsliðsmaðurinn Kári Árnason missir af leiknum vegna þess að hann tekur út leikbann.

Það var létt yfir Zlatan á blaðamannafundi.
Það var létt yfir Zlatan á blaðamannafundi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert