Benteke skaut Liverpool áfram

Liverpool sigraði Bordeaux, 2:1, í B-riðli Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld en leikið var á Anfield í Liverpool. Heimamenn komust á topp riðilsins með þessum og tryggðu sér um leið sæti í 32-liða úrslitum keppninnar.

Gestirnir komumst þó yfir í leiknum eftir óbeina aukaspyrnu. Simon Mignolet, markvörður Liverpool, var eitthvað að dóla með boltann og fékk dæmda á sig óbeina aukaspyrnu. Úr henni skoraði Saviet. 

James Milner jafnaði fyrir Liverpool úr vítaspyrnu rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og Christian Benteke skoraði sigurmark Liverpool með síðustu spyrnu fyrri hálfleiks.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

Átta leikir í Evrópudeildinni hófust klukkan 20.05 og úrslit þeirra má sjá hér að neðan:

Liverpool-Bordeaux 2:1
Club Brugge-Napoli 0:1
Villarreal-R.Vín 1:0
Celtic-Ajax 1:2
Marseille-Groningen 2:1
Molde-Fenerbache 0:2
PAOK-Gabala 0:0
L.Varsjá-Midtjylland 1:0

21.56. Liverpool sigrar 2:1 og er komið í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar!

21.30 Leikurinn hefur róast talsvert og gestirnir hafa náð áttum eftir frábæra byrjun heimamanna á síðari hálfleik. Spurning hvort það reynist Liverpool dýrkeypt að hafa ekki náð að skora mark á meðan yfirburðir liðsins voru svona miklir?

21.20 Boltinn virðist fara í hönd Benteke eftir horn gestanna. Dómarinn dæmir ekki neitt og Frakkarnir eru alveg brjálaðir!

21.19 Liverpool er í stórsókn þessa stundina. Jordan Ibe komst í gott færi en skaut beint á Carasso í marki gestanna. Með þessu áframhaldi hlýtur Liverpool að bæta við marki fljótlega.

21.17 Benteke skoraði mark en það er dæmt af! Dómarinn mat það þannig að belgíski sóknarmaðurinn hefði stjakað við varnarmanni gestanna í aðdraganda marksins og markið fékk því ekki að standa. Staðan enn 2:1 fyrir Liverpool.

21.14 Benteke! Fékk fínt skotfæri utarlega í vítateig gestanna en þrumaði boltanum næstum því yfir stúkuna.

21.07 Síðari hálfleikur er hafinn!

20.53 Fyrri hálfleik er lokið!

20.52. Mark! Benteke kemur Liverpool í 2:1. Clyne kemur boltanum inn í vítateig gestanna þar sem Benteke tekur á móti boltanum og þrumar honum í netið, fallegt mark. Þetta var síðasta spyrna fyrri hálfleiks og Liverpool því 2:1 yfir í hálfleik!

20.44 Mark! James Milner jafnar metinn fyrir heimamenn úr vítaspyrnu, staðan er 1:1! Vítaspyrnan var dæmd eftir að Santé, varnarmaður Bordeaux, hélt Benteke, sóknarmanni Liverpool, þegar knötturinn var á leið inn í vítateig gestanna. Heimskulegt brot, því Benteke hefði líklega ekki náð boltanum!

20.39 Mark! Gestirnir frá Bordeaux eru komnir yfir. Þeir fengu dæmda óbeina aukaspyrnu eftir að Mignolet í marki Liverpool hélt of lengi á knettinum. Saviet tók aukaspyrnuna og klíndi boltanum upp í samskeytin; sannkallaður smjörhnífur! 0:1 fyrir Bordeaux!

20.35. Mark dæmd af Liverpool. Benteke kemur knettinum í mark gestanna en er dæmdur rangstæður!

20.33 Kolo Toure var allt í öllu í sókn Liverpool sem endaði með slöku skoti hans framhjá marki gestanna. Toure tók sprett úr vörninni og var ekki kominn aftur í varnarstöðu þegar boltinn barst á hann rétt fyrir utan vítateig. Hann tók boltann á lofti en skotið var býsna laust og fór framhjá markinu. Skemmtileg tilraun engu að síður!

20.21 Úff þarna voru gestirnir nálægt því að komast yfir! Slök sending frá Lucas á miðju Liverpool varð til þess að Mignolet í markinu þurfti að koma út fyrir vítateiginn og skalla boltann. Skallinn var hins vegar slakur og leikmenn Bordeaux náðu knettinum og reyndu skot en Kolo Toure komst fyrir boltann og bjargaði marki.

20.16 Heimamenn hafa verið líflegir fyrstu mínútur leiksins. Þeir reyna mikið að sækja upp vinstri vænginn en þar hefur Jordan Ibe verið sprækur. 

20.05 Leikurinn er hafinn!

19.25 Varamenn Liverpool eru Bogdan, Skrtel, Randall, Brannagan, Can, Lallana og Origi. Daniel Sturridge glímir enn við meiðsli og er því ekki í leikmannahópnum og Coutinho er einnig meiddur.

19.05 Byrj­un­arliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Liverpool: Mignolet, Clyne, Toure, Lovren, Moreno, Lucas, Allen, Milner, Ibe, Firmino, Benteke.

Bordeaux: Carasso, Contento, Santé, Yambéré, Chantome, Poko, Plasil, Rolán, Saviet, Jussie, Crivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert