Danir á EM vegna mútugreiðslna?

Danir voru í sárum sínum eftir tapið gegn Svíum í …
Danir voru í sárum sínum eftir tapið gegn Svíum í EM-umspilinu. AFP

Danska karlalandsliðið í knattspyrnu eygir nú ef til vill von um að komast bakdyramegin í lokakeppni Evrópumótsins í Frakklandi næsta sumar, þrátt fyrir tapið gegn Svíum í umspili fyrr í þessum mánuði.

Danir lentu í 3. sæti í sínum undanriðli, rétt á eftir Albaníu sem komst beint í lokakeppnina. Albanía vann Armeníu 3:0 á útivelli í lokaleik undankeppninnar, en hefði liðið ekki náð sigri hefðu Danir fengið 2. sætið og komist á EM. Nú virðist sem maðkur hafi verið í mysunni hvað varðar leik Armeníu og Albaníu, alla vega eftir því sem formaður armenska knattspyrnusambandsins segir:

„Landsliðið okkar vildi einfaldlega ekki spila þennan dag. Hvað varðar þennan leik gegn Albaníu þá er ég handviss um að brögð voru í tafli,“ sagði formaðurinn Ruben Hayrapetian, við Armenia Now.

Daginn eftir umræddan leik birtist frétt í serbneska blaðinu Telegraf, þar sem því var haldið fram að fjórir leikmenn Armeníu hefðu þegið mútugreiðslu gegn því að tapa leiknum. Þessi frétt var ekki tekin alvarlega á þeim tíma, enda var í henni aðeins vísað í eina albanska vefsíðu sem heimild.

EkstraBladet í Danmörku spurði Knattspyrnusamband Evrópu út í málið og fékk þau svör að það yrði rannsakað ef eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað. Sambandið kvaðst hins vegar ekki hafa nein gögn í höndunum í dag sem sýndu fram á svindl í umræddum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert