„Ég svaf ekki í þrjá daga eftir hryðjuverkin“

Vincent Kompany.
Vincent Kompany. AFP

Vincent Kompany, fyrirliði Manchester City, svaf ekki í þrjá daga eftir hryðjuverkin í París 13. nóvember. Hann trúir því þó og vonar að lífið fari fljótlega aftur í eðlilegt horf í heimalandi hans, Belgíu, eftir atburði síðustu daga. 

16 einstaklingar voru handteknir í viðamiklum aðgerðum lögreglunnar en Salah Abdeslam komst undan. Hann er talinn einn af mönnunum á bak við árásina í París og er á flótta. Brussel var lömuð á sunnudag vegna yfirvofandi hryðjuverkaógnar. 

„Allar þessar fréttir voru afar óþægilegar. Ég svaf ekki í þrjá daga eftir hryðjuverkin í París en það var líka mjög óþægilegt að heyra um hlutina sem áttu sér stað í minni borg,“ sagði Kompany.

„Ég elska borgina mína þannig að þetta særði mig. Ég elska fólkið í borginni og var líkt og flestir í miklu sjokki vegna atburðanna,“ bætti Kompany við.

Hann kveðst þess fullviss að Brussel komi sterkari út úr þessum erfiðleikum. „Brussel mun ávallt verða borg fjölbreytileika. Ég hvet alla til að tjá sig og segja hversu mikið þeir elska borgina til að opna á jákvæða umræðu,“ sagði fyrirliði Manchester City að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert