Birkir og Tottenham komust áfram

Birkir Bjarnason og félagar hans í Basel tryggðu sér rétt í þessu sæti í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Basel gerði 2:2 jafntefli við Fiorentina í Sviss og dugði stigið liðinu til að komast áfram í keppninni. Birkir var í byrjunarliði Basel og var tekinn af velli á 88. mínútu.

Nýkrýndir tvöfaldir meistarar í Noregi, Rosenborg, með þá Hólmar Örn Eyjólfsson og Matthías Vilhjálmsson innanborðs, eru hins vegar úr leik. Rosenborg gerði 1:1 jafntefli við St. Etienne en hefði þurft sigur til að eiga möguleika á því að komast áfram. Hólmar lék allan leikinn í vörn Rosenborgar en Matthías kom inn á sem varamaður á 82. mínútu.

Enska félagið Tottenham tryggði sér sæti í 32-liða úrslitum með 1:0 útisigri á Qarabag frá Aserbadjan. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is en Harry Kane skoraði eina mark leiksins rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.

Úrslit í leikjunum sem hófust klukkan 18.00:

Lazio-Dnepropetr 3:1
Augsburg-A.Bilbao 2:3 
Schalke-APOEL 1:0 
Monaco-Anderlecht 0:2 
Rosenborg-St.Etienne 1:1
AZ Alkmaar-Partizan 1:2
Basel-Fiorentina 2:2  
Sp.Prag-Asteras 1:0
L.Moskva-Sp.Lissab 2:4
Besiktas-Skenderbeu 2:0
Belenenses-L.Poznan 0:0
Qarabag-Tottenham 0:1

19.50 Leik lokið! Tottenham sigraði Qarabag, 1:0. Tottenham er því komið áfram í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar.

19.35 Harry Kane er búinn að koma gestunum yfir, staðan er 1:0. Hann skorar markið eftir hornspyrnu. Tottenham-mönnum er létt!

19.29 Staðan í hinum leik riðilsins, viðureign Monaco og Anderlecht, er 1:0 fyrir gestina frá Belgíu. Verði þetta lokastaðan í báðum leikjunum þá geta öll lið riðilsins komist áfram fyrir lokaumferðina.

19.24 Tottenham hefur nánast verið með boltann allan síðari hálfleikinn. Pressan er að verða þung en gestunum frá London gengur þó illa að skapa sér góð færi.

19.00 Síðari hálfleikur er hafinn.

18.46 Staðan að loknum fyrri hálfleik er markalaus. Það verður seint sagt um fyrri hálfleik að hann hafi verið mikil skemmtun. Liðin hljóta að vera að spara kraftana fyrir síðari hálfleikinn.

18.40 Staðan í hinum leik riðilsins, viðureign Monaco og Anderlecht, er einnig markalaus.  

18.17 Leikurinn hefur verið rólegur hingað til. Stjörnur Tottenham hafa lítið komist í boltann og heimamenn eru hvergi bangnir.

18.00 Leikurinn er hafinn!

17.37 Leikurinn fer fram í Baku í Aserbadjan. Þegar leikurinn hefst er klukkan 22.00 að staðartíma!

17.25 Byrjunarliðin eru klár og þau má sjá hér að neðan:

Qarabag: Sehic, Medvedev, Sadygov, Agolli, Huseynov, Garayev, Dani Quintana, Richard Almeida, Ismayilov, Taghiyev, Poepon.
Tottenham: Lloris (c), Trippier, Alderweireld, Vertonghen, Davies; Dier, Mason; Alli, Eriksen, Son; Kane.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert