Fólk er ekki fífl!

Mathieu Valbuena og Karim Benzema
Mathieu Valbuena og Karim Benzema AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Mathieu Valbuena segir í viðtali við franska dagblaðið Le Monde í dag að félagi hans í franska landsliðinu, Karim Benzema, hefði óbeint sagt honum að greiða lausnargjald fyrir kynlífsmyndskeið af honum og unnustu hans.

Þetta er í fyrsta skipti sem Valbuena tjáir sig opinberlega um málið en Benzema, sem er 27 ára leikmaður Real Madrid, hefur verið ákærður fyrir að vera samsekur í fjársvikamáli um að kúga Valbuena til að greiða fyrir kynlífsmyndskeið sem stolið var úr síma hans. 

Le Monde spyr Valbuena hvort Benzema hafi hvatt hann til þess að hitta fjárkúgarana að máli. Valbuena segir að Benzema hafi ekki haft í hótunum við hann og ekki talað beint út um peninga. „En þegar einhver krefst þess að ég hitti einhvern... hmmmm.“

„Ég hef aldrei hitt neinn sem ætlar að eyða myndskeiði án þess að fá greitt fyrir það bara vegna þess að viðkomandi elski mig! Þú ættir ekki að koma fram við fólk eins og fífl,“ bætir Valbuena við.

Samkvæmt heimildum innan úr rannsókninni hefur Benzema viðurkennt fyrir lögreglu að hann hafi verið milligöngumaður milli Valbuena og eins af þeim sem reyndu að kúga fé út úr Valbuena en sá er æskufélagi Benzema.

Hneykslismálið hefur hrist upp í frönsku knattspyrnunni en EM í knattspyrnu verður haldið í Frakklandi næsta sumar og er alls óvíst hvort Valbuena eða Benzema muni fá að keppa fyrir hönd þjóðar sinnar á EM. Benzema hefur verið bannað að hitta Valubena og hvorugur þeirra hefur verið valinn í lið Frakklands í landsleikjum að undanförnu.

Le Monde

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert