Blyskast og ólæti stuðningsmanna dýrkeypt

Alfreð brá þegar blysið fór í hann.
Alfreð brá þegar blysið fór í hann. Ljósmynd/Twitter/Dimitris Vergos.

Þrjú stig voru dregin af gríska knattspyrnufélaginu Panathinaikos í dag vegna óláta stuðningsmanna fyrir fyrirhugaðan grannaslag gegn Olympiacos 21. nóvember. Leiknum var frestað vegna ólátanna en Alfreð Finnbogason fékk meðal annars blys í sig í upphitun fyrir leikinn.

Panathinaikos var einnig sektað um 190.000 evrur (tæpar 27 milljónir íslenskra króna) og skipað að leika næstu fjóra heimaleiki fyrir luktum dyrum. Olympiacos var dæmdur 3:0 sigur í leiknum sem aldrei fór fram.

Stigafrádrátturinn þýðir að Panathinaikos eru nú í 5. sæti grísku deildarinnar með 19 stig, 17 stigum á eftir toppliði Olympiacos. Félagið hefur þó rétt á að áfrýja dómnum.

Dómari hins fyrirhugaða leiks, Andreas Pappas, ákvað að fresta leiknum eftir að hafa fengið fréttir og orðið vitni að ofbeldi innan vallar sem utan. Um leið og ákvörðunin var tilkynnt þustu stuðningsmenn inn á völlinn og slógust við óeirðalögreglu.

Samkvæmt lögreglu voru 14 manns handteknir og þrír lögregluþjónar meiddust í átökunum, þar af einn alvarlega. Lögregla þurfti að beita táragasi til að ná stjórn á fólki og miklar skemmdir urðu á leikvanginum.

Varaforseti Olympiacos, Savvas Theodoridis, sagði í viðtali í grísku sjónvarpi á leikdegi að lögin væru skýr í svona málum; „leikurinn ætti ekki að vera spilaður. Við leikum ekki í frumskóginum.“ Hann minntist einnig á að Alfreð hefði meiðst vegna þess að blys fór í hann og annar leikmaður hefði einnig orðið fyrir blysi.

Óeirðarlögregla greip í taumana.
Óeirðarlögregla greip í taumana. AFP
Stuðningsmenn Panathinaikos kveiktu í blysum og flugeldum.
Stuðningsmenn Panathinaikos kveiktu í blysum og flugeldum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert