Lewandowski í Heimsmetabók Guinness

Lewandowski er kominn í heimsmetabókina.
Lewandowski er kominn í heimsmetabókina. AFP

Pólski sóknarmaðurinn Robert Lewandowksi er kominn í Heimsmetabók Guinness. Hlaut hann fjórar viðurkenningar fyrir mörkin fimm sem hann skoraði á níu mínútna kafla í leik með Bayern München gegn Wolfsburg í 5:1 sigri í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu.

Lewandowski kom inn á sem varamaður í hálfleik í umræddum leik og það tók hann nákvæmlega 8 mínútur og 59 sekúndur að skora mörkin fimm. „Þetta var sögulegt kvöld fyrir mig. Ég var dágóða stund að átta mig á þessu og fjölskyldan var spenntari en ég,“ sagði Lewandowski eftir að hafa tekið á móti viðurkenningunum.

Hann var fljótastur að skora þrennu (3 mínútur og 22 sekúndur), fljótastur að skora fjögur mörk (5 mínútur og 42 sekúndur), fljótastur að skora fimm mörk og fyrstur í sögu þýsku knattspyrnunnar til að skora fimm mörk eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

Framherjinn segist ætla að gefa skóna sem hann lék í til góðgerðamála. Þrátt fyrir marka- og metaregnið tókst Lewandowski ekki að slá eitt met. Fyrir 38 árum skoraði Dieter Müller sex mörk í einum og sama leiknum. „Æðri máttarvöldum hefur greinilega þótt fimm mörk duga mér,“ sagði Lewandowski.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert