Napoli á toppinn eftir dramatík

Gonzalo Higuaín og félagar fagna marki gegn Inter í kvöld.
Gonzalo Higuaín og félagar fagna marki gegn Inter í kvöld. AFP

Napoli vann í kvöld toppslag ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu þegar liðið lagði Inter Mílanó að velli, 2:1.

Með sigrinum komst Napoli upp fyrir Inter á toppinn, en aðeins einu stigi munar á liðunum. Toppbaráttan er hörð en Napoli er með 31 stig, Inter 30, Fiorentina 29, Roma 27 og meistarar Juventus með 24.

Það var hinn argentínski Gonzalo Higuaín sem skoraði bæði mörk Napoli í leiknum, en hann er markahæstur í deildinni með 12 mörk. Higuaín kom Napoli yfir á 2. mínútu og bætti við seinna marki sínu á 62. mínútu.

Inter-menn sýndu hins vegar svakalega baráttu. Þrátt fyrir að hafa misst Yüto Nagatomo af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik þá minnkuðu þeir muninn í 2:1 á 67. mínútu, og voru svo hársbreidd frá því að jafna metin í lokin. Stevan Jovetic átti skalla í tréverkið á þriðju mínútu uppbótartíma, og Miranda átti svo marktilraun sem Pepe Reina tókst að verja í stöng.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert