Sögðu Neymar verðskulda högg

Neymar sýndi listir sínar í leiknum við Real Madrid, og …
Neymar sýndi listir sínar í leiknum við Real Madrid, og það virðist hafa farið í taugarnar á Madridingum. AFP

Barcelona hefur lagt fram kvörtun vegna þess hvernig tveir fyrrverandi leikmenn Real Madrid tjáðu sig í fjölmiðlum um brot Isco á hinum brasilíska Neymar í El Clásico á dögunum.

Isco fékk að líta rauða spjaldið undir lok leiksins fyrir að sparka viljandi í Neymar, í 4:0-sigri Barcelona. Börsungar vilja meina að þeir Manolo Sanchis og Poli Rincon, sem báðir eru fyrrverandi leikmenn Real, hafi ítrekað reynt að réttlæta þessa meðferð á Brasilíumanninum. Þess vegna hefur Barcelona sett sig í samband við starfshóp á vegum spænska ríkisins sem vinnur að því að stöðva ofbeldi í íþróttum.

„FC Barcelona telur að þessar fullyrðingar stuðli að auknu ofbeldi og fer því fram á aðgerðir af hálfu hópsins sem vinnur gegn ofbeldi,“ sagði í yfirlýsingu á vef Barcelona.

Sanchis á meðal annars að hafa sagt: „Neymar gekk of langt, hann fær ekki nógu mörg högg.“ Rincon mun hafa sagt: „Ef ég hefði verið þarna þá hefði ég sparkað í hann. Það er enginn vafi um það að ég hefði gert það, ég og allir aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert