Messi slapp við tognun

Lionel Messi tekur aukaspyrnu í leiknum í gær.
Lionel Messi tekur aukaspyrnu í leiknum í gær. AFP

Barcelona gaf út yfirlýsingu fyrir stundu um að Lionel Messi hefði sloppið við meiðsli í leiknum við Athletic Bilbao í gærkvöld og þar með eru líkur á að hann spili á miðvikudag þegar liðin mætast á ný í spænsku bikarkeppninni í knattspyrnu.

Luis Enrique skipti Messi af velli í hálfleik í gærkvöld en hann hafði þá skorað fyrsta mark liðsins í 6:0 sigri. Tyrkinn Arda Turan leysti hann af hólmi í seinni hálfleiknum. „Ég er ekki vanur að taka áhættu með leikmenn og allra síst með Messi," sagði Enrique eftir leikinn.

Enrique sagði að hann hefði tekið Messi af velli til að taka enga áhættu en óttast var að hann hefði tognað aftan í læri. Barcelona hefur hinsvegar tilkynnt að myndatökur í morgun hafi leitt í ljós að aðeins hafi verið um smávægilegt högg að ræða en ekki tognun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert