Okkur er sýnd mikil vanvirðing

Hope Solo og stöllur í bandaríska landsliðinu búa sig nú …
Hope Solo og stöllur í bandaríska landsliðinu búa sig nú undir leiki í forkeppni Ólympíuleikanna en þær mæta Kosta Ríku næsta fimmtudag. AFP

Leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu eru margir hverjir æfir eftir að persónuupplýsingar um þá, svo sem netföng og heimilisföng, voru gerðar opinberar á miðvikudag.

Gögnin voru gerð opinber í réttarhöldum vegna lögsóknar bandaríska knattspyrnusambandsins á hendur samtaka leikmanna bandaríska kvennalandsliðsins. Knattspyrnusambandið vill fá á hreint að kjarasamningur við leikmenn renni út í lok árs 2016, samkvæmt samkomulagi frá árinu 2013, en leikmannasamtökin eru ekki sammála. Fari svo að samkomulagið verði dæmt ógilt myndi það styrkja stöðu leikmanna í viðræðum um nýjan samning, því sá möguleiki væri fyrir hendi að þeir færu í verkfall fyrir Ólympíuleikana í Ríó.

Í gögnunum sem birt voru á miðvikudag mátti meðal annars finna netföngin hjá stjörnum bandarísku heimsmeistaranna eins og Carli Lloyd, Alex Morgan, Hope Solo, Megan Rapinoe og Becky Sauerbrunn, og heimilisföng 28 leikmanna. Búið er að fela gögnin að nýju en skaðinn er skeður:

„Leikmenn eru í mjög miklu uppnámi. Við teljum að okkur sé sýnd mikil vanvirðing. Persónulegar upplýsingar um okkur, og öryggi okkar, var meðhöndlað af kæruleysi og mikilli vanrækslu. Ég efast um að það hafi verið tilgangurinn, en þetta eru stór og óásættanleg mistök,“ sagði Rapinoe við New York Times.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert