Eiður Smári heillaði liðsfélaga

Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki á sínum tíma með Cercle …
Eiður Smári Guðjohnsen fagnar marki á sínum tíma með Cercle Brugge. AFP

„Ég man að ég var alltaf heillaður af því þegar við fórum í skotæfingar. Við hinir þrumuðum á markið en hann gerði hlutina svo auðveldlega, skoraði næstum því í hvert einasta skipti,“ sagði Mushaga Bakenga, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Molde, um landsliðsmanninn Eið Smára Guðjohnsen en Eiður gæti verið á leiðinni til félagsins.

Bakenga lék með Eiði í Cercle Brugge fyrir þremur árum og ber honum söguna afar vel.

„Hann er ótrúlega góður. Þú sérð það á leikskilningnum og boltameðferðinni að hann hefur verið í Barcelona. Hann reynir ekki að gera hlutina of flókna, heldur er hann bara frábær og fágaður leikmaður. Hann gerir hlutina svo einfalt og vel,“ sagði Bakenga og sagði Eið hiklaust vera þann besta sem hann hefði spilað með.

Ari Freyr Skúlason og Eiður Smári Guðjohnsen.
Ari Freyr Skúlason og Eiður Smári Guðjohnsen. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 

„Ég tek honum opnum örmum. Við spiluðum vel saman og ég skoraði mörg mörk og flest þeirra komu í gegnum Eið. Við náum vel saman og hann gerði mig að miklu betri fótboltamanni,“ sagði Bakenga sem er einnig ánægður með Eið utan vallar og segir að þeir hafi verið góðir vinir í Belgíu.

„Ég var með stjörnurnar í augunum þegar ég sá hann fyrst en en eftir 10 mínútur fattaði ég að hann var bara venjulegur gaur án allra stjörnustæla.“

Bakenga telur einnig að aldurinn muni ekki há Eiði en hann er 37 ára gamall.

„Hann hefur ekkert að segja. Hann vill vera í toppformi og spila á EM í sumar. Það væri frábært að fá að spila með honum þegar hann lýkur ótrúlegum ferli sínum,“ sagði Bakenga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert