Barcelona hefur ekki efni á MSN

Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar fagna einu af mörkum …
Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar fagna einu af mörkum Barcelona í vetur. AFP

Guillem Balague, blaðamaður Skysports, heldur því fram í pistli sínum í dag að Barcelona hafi ekki fjárhagslegt bolmagn til þess að halda sóknarþríeyki sínu, þeim Lionel Messi, Luis Suarez og Neymar á næstu leiktíð.

Balague segir að sigur Barcelona í Meistaradeild Evrópu hafi orðið til þess að félagið gat haldið sínum sterkustu og launahæstu leikmönnum. Balague telur hins vegar að fjárhagsleg innspýting þurfi að koma inn í félagið á næstunni ætli liðið að fá þremenningana til þess að standast gylliboð frá Englandi.

Neymar hefur undanfarið verið orðaður við Manchester United og hefur brasilíski landsliðsframherjinn sjálfur gefið þeim sögusögnum undir fótinn. Þá hafa enskir og spænskir fjölmiðlar velt vöngum yfir því hvort Lionel Messi hafi áhuga á því að endurnýja kynnin við Pep Guardiola og ganga til liðs við Manchester City næsta sumar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert