Að duga eða drepast á laugardaginn

Gary Neville, knattspyrnustjóri Valencia, gefur skipanir á hliðarlínunni.
Gary Neville, knattspyrnustjóri Valencia, gefur skipanir á hliðarlínunni. AFP

Gary Neville, knattspyrnustjóri Valencia, gerir sér fullkomlega grein fyrir því að lið hans verður að ná sigurleik í næsta leik til þess að lægja öldurnar hjá félaginu. Valencia mætir Espanyol á laugardaginn kemur og Nevile setur þann leik upp sem úrslitaleik upp á framhaldið. 

Neville hefur ekki enn tekist að bera sigur úr býtum í deildarleik síðan hann tók við starfi knattspyrnustjóra Valencia skömmu fyrir síðustu jól.

Valencia hefur beðið ósigur í fjörum leikjum og gert fimm jafntefli og farið frá því að eiga möguleika á að berjast um sæti í Meistaradeild Evrópu til fallbaráttu síðan Neville tók við. Valencia er sem stendur í 14. sæti deildarinnar, fjórum stigum frá fallsæti. 

„Við verðum að vinna á laugardaginn og ég set mikla pressu bæði á sjálfan mig og liðið. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því í hversu slæma stöðu við við erum komnir í og ég þrái ekkert heitar en sigur til þess að létta andrúmsloftið," sagði Neville á blaðamannafundi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert