Barcelona setti met í kvöld

Eins og sjá má á þessari mynd var ekki fullur …
Eins og sjá má á þessari mynd var ekki fullur völlur í kvöld. AFP

Barcelona setti félagsmet í kvöld þegar liðið gerði 1:1 jafntefli við Valencia í seinni leik liðanna í undanúrslitum spænsku konungsbikarkeppninnar. Barcelona vann fyrri leikinn örugglega, 7:0, og er því komið í úrslit. 

Leikurinn í kvöld var 29. leikurinn í röð sem Barcelona leikur án þess að tapa. Gestirnir stilltu upp óhefðbundnu liði en skærustu stjörnur Börsunga, Messi, Neymar og Suárez fengu allir hvíld í kvöld.

Valencia var nálægt því að sigra, og eyðileggja þar með met Börsunga, en tókst það ekki frekar en fyrri daginn undir stjórn Gary Neville. Heimamenn komust yfir rétt fyrir lok fyrri hálfleik en gestirnir jöfnuðu sex mínútum fyrir leikslok og fleiri urðu mörkin ekki.

Barcelona mætir annað hvort Sevilla eða Celta Vigo í úrslitum bikarkeppninnar en síðari leikur þeirra fer fram á morgun. Líklegt verður að teljast að Sevilla verði andstæðingur Barcelona í úrslitaleiknum enda hafði liðið betur í fyrri leiknum gegn Celta, 4:0.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert