Var í helvíti en er nú í paradís

Ben Arfa er ánægður að vera kominn aftur til Frakklands.
Ben Arfa er ánægður að vera kominn aftur til Frakklands. AFP

Franski knattspyrnumaðurinn Hatem Ben Arfa segir að dvöl sín á Englandi hafi verið líkust helvíti. Núna er hann hins vegar kominn aftur til paradísar; Frakklands og nýtur þess á nýjan leik að spila fótbolta.

„Helvíti er það þegar allir snúa baki við þér. Helvíti er líka þegar þú sérð ekki ljós við enda ganganna. Þú ert einn, hefur engan stuðning, og reynir að fikra þig áfram í þokunni. Þú veist ekki hvert þú ert að fara, bara að leiðin er röng. Ég hef upplifað þetta,“ sagði Ben Arfa við franska miðilinn OnzeMondial.

Ben Arfa sagði í viðtali í nóvember að síðustu mánuðir hans undir stjórn Alan Pardew hjá Newcastle hefðu verið þeir verstu á ferlinum. Ben Arfa var lánaður til Hull haustið 2014 þaðan sem hann fór til Frakklands og skrifaði undir samning við franska félagið Nice fyrir 13 mánuðum síðan.

„Núna er ég heppinn að vera hjá liði og þjálfara sem styðja mig. Þetta er algjör paradís miðað við það sem ég gekk í gegnum. Ég er ekki einmana lengur, ég finn ást og stuðning,“ bætti Ben Arfa við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert