Cruyff með yfirhöndina gegn krabbameininu

Baráttan gegn lungnakrabbameininu gengur vel.
Baráttan gegn lungnakrabbameininu gengur vel. AFP

Hollendingnum Johan Cruyff finnst hann hafa yfirhöndina í baráttunni við lungnakrabbamein. Hann greindist með sjúkdóminn síðasta haust en segir að sér líði eins og hann sé með tveggja marka forystu í fyrri hálfleik og muni á endanum standa uppi sem sigurvegari.

„Eftir nokkrar meðferðir hjá læknum get ég nú sagt að niðurstöðurnar hafa verið mjög jákvæðar. Ég þakka það frábærum læknum, góðu fólki í kringum mig og mínu jákvæða hugarfari,“ sagði Cruyff í yfirlýsingu á vefsíðu sinni.

„Núna líður mér eins og staðan sé 2:0 í fyrri hálfleik í leik sem er ekki lokið. Ég er hins vegar handviss um að ég muni hafa betur í þessari viðureign.“

Cru­yff, sem er 68 ára gam­all, var lyk­ilmaður í hinu öfl­uga landsliði Hol­lend­inga sem lék til úr­slita um heims­meist­ara­titl­inn í Vest­ur-Þýskalandi árið 1974 og var út­nefnd­ur besti leikmaður keppnin­ar. 

Hann fékk þris­var Gull­bolt­ann sem besti knatt­spyrnumaður heims, 1971, 1973 og 1974, var tvö seinni árin kjör­inn íþróttamaður árs­ins í Hollandi, varð átta sinn­um hol­lensk­ur meist­ari með Ajax og einu sinni með Feyenoord, og einu sinni spænsk­ur meist­ari með Barcelona.

Cru­yff þjálfaði Barcelona sem varð fjór­um sinn­um í röð spænsk­ur meist­ari und­ir hans stjórn, frá 1991 til 1994, og Evr­ópu­meist­ari árið 1992.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert