Saknar spennunnar á Englandi

Suárez hefur farið á kostum í búningi Barcelona.
Suárez hefur farið á kostum í búningi Barcelona. AFP

Sóknarmaðurinn Luis Suárez gæti hugsað sér að snúa aftur til Liverpool síðar á ferlinum. Hann gekk til liðs við Barcelona frá Liverpool sumarið 2014 og hefur síðan þá verið óstöðvandi í sóknarlínu Barcelona en liðið er búið að vinna fimm titla síðan Suárez kom til Spánar.

„Helst væri ég til í að vera hérna í mörg ár til viðbótar en ég veit að hlutirnir ganga ekki alltaf upp. Ef ég sný aftur í enska boltann gæti ég bara farið til Liverpool. Ég gæti ekki gengið til liðs við annað lið og myndi ekki hugsa um peningana. Einnig gæti ég hugsað mér að leika aftur með Ajax en þeir gáfu mér tækifæri til að spila í Evrópu,“ sagði Suárez en hann lék með Ajax á árunum 2007 - 2001, áður en hann gekk til liðs við Liverpool.

Hann saknar spennunnar úr ensku úrvalsdeildinni, sem hann segir óútreiknanlega. Ágætt dæmi um það er staða Leicester en liðið er á toppi deildarinnar eftir að hafa bjargað sér frá falli í fyrra á ótrúlegan hátt.

„Maður veit aldrei hvað gerist í úrvalsdeildinni og munurinn á liðunum er ákaflega lítill. Hérna (á Spáni) eru þrjú eða fjögur sterk lið og bilið niður í slakari liðin er mikið,“ sagði Suárez.

„Stundum virðast blaðamenn einungis velta fyrir sér hversu mörg mörk Barcelona muni skora í leik. Hins vegar veit maður aldrei hvað getur gerst í úrvalsdeildinni og ég sakna þess.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert