Suárez skoraði þrennu í seinni hálfleik

Barcelona mætti Celta Vigo í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu karla á Nou Camp, heimavelli Barcelona í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 6:1 Barcelona í vil. 

Lionel Messi kom Barcelona yfir með 13. marki sínu í deildinni í vetur, en Messi skoraði með glæsilegu skoti beint úr aukaspyrnu. Það var svo John Guidetti sem jafnaði metin fyrir Celta Vigo með marki úr vítaspyrnu.

Luis Suárez kom svo Barcelona yfir á nýjan leik með marki á 59. mínútu leiksins og jafnaði þar með Cristiano Ronaldo á listanum yfir markahæstu leikmenn deildarinnar. Luis Suárez bætti svo um betur um það bil korteri síðar og skákaði þar með Ronoldo á fyrrgreindum lista.

Suarez fullkomnaði svo þrennuna með aðstoð Lionel Messi. Messi renndi boltanum til Suárez úr vítaspyrnu og Suárez skoraði 23. deildarmark sitt í vetur. 

Ivan Rakitic og Neymar fullkomnuðu svo niðurlægingu Celta Vigo með einu marki hvor undir lok leiksins. 

Leik­ur­inn í kvöld var 30. leik­ur­inn í röð sem Barcelona leik­ur án þess að tapa og liðið náði með sigrinum þriggja stiga forskoti á toppi deildarinnar á Atletico Madrid.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert