Áfall fyrir Aalesund

Aron Elís Þrándarson, leikmaður Aalesund.
Aron Elís Þrándarson, leikmaður Aalesund. Ljósmynd/Aalesund.no

Norska knattspyrnuliðið Aalesund, þar sem þrír Íslendingar eru á mála, tapaði óvænt fyrir C-deildarliðinu Brattvåg í þriðju umferð norsku bikarkeppninnar í kvöld, eftir framlengingu og vítaspyrnukeppni.

Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma, 1:1 eftir framlengingu þar sem Brattvåg komst yfir, og vítaspyrnukeppnina vann heimaliðið 5:4.

John Arne Riise, einn þekktasti knattspyrnumaður Noregs á seinni árum sem lék m.a. með Liverpool, kom til Aalesund fyrir tímabilið. Hann lék allan leikinn og skoraði í vítaspyrnukeppninni en það dugði ekki til.

Aron Elís Þrándarson kom inná sem varamaður á 86. mínútu og lék framlenginguna. Adam Örn Arnarson sat á bekknum allan tímann en Daníel Leó Grétarsson var ekki í hópnum.

Aalesund hafði komist í gegnum fyrstu tvær umferðirnar við illan leik, eftir nauma sigra á D-deildarliðum, og annan þeirra eftir framlengingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert