Ronaldo segist verða klár

Stumrað yfir Ronaldo á æfingunni í morgun.
Stumrað yfir Ronaldo á æfingunni í morgun. AFP

Cristiano Ronaldo kveðst verða klár í slaginn á laugardaginn þegar Real Madrid mætir Atlético Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu, þrátt fyrir meiðsli sem hann varð fyrir á æfingu í morgun.

„Ég fékk smá högg á æfingunni en mér líður vel og ég verð örugglega tilbúinn í leikinn á laugardaginn. Ég verð  bara tvo daga eða svo að jafna mig af þessu og verða 100 prósent heill á ný,“ sagði Ronaldo á vef Real Madrid fyrir stundu.

Hann hefur skorað 16 mörk í Meistaradeildinni á þessu tímabili og vantar eitt enn til að jafna markametið en tvö til að slá það. 

„Það yrði gaman að ná markametinu en það verður þá að koma af sjálfu sér. Það sem skiptir mestu máli er að vinna. Við enduðum deildina mjög vel og ef við vinnum á laugardaginn þá er tímabil Real Madrid vel heppnað. Við höfum fulla trú á að það takist, Atlético vill að sjálfsögðu sigra en við erum tilbúnir,“ sagði Ronaldo ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert