Cantona ber Deschamps þungum sökum

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari franska landsliðsins í knattspyrnu, valdi Hatem Ben …
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari franska landsliðsins í knattspyrnu, valdi Hatem Ben Arfa ekki í leikmannahóp liðsins fyrir EM. AFP

Eric Cantona, fyrrum leikmaður franska landsliðsins í knattspyrnu, ber Didier Deschamps, þjálfara franska landsliðins í knattspyrnu, þungum sökum í samtali við The Guardian í vikunni.

Cantona leiðir líkum að því í viðtalinu að kynþáttafordómar búi að baki þeirri ákvörðun Deschamps að velja Karim Benzema og Hatem Ben Arfa ekki í leikmannhóp franska liðsins fyrir lokakeppni EM sem hefst eftir rúmar tvær vikur. 

Hatem Ben Arfa hefur leikið afar vel fyrir Nice í frönsku efstu deildinni í vetur, en hann hlýtur hins vegar ekki náð fyrir augum Deschamps. Þá varð fjárkúgun í garð Mathieu Valbuena sem Karim Benzema flæktist í til þess að sá síðarnefndi var ekki valinn í franska leikmannahópinn.

„Benzema er frábær leikmaður líkt og Ben Arfa. Deschamps er af hreinum frönskum ættum og fjölskylda hans hefur ekki ruglað saman reitum við aðra en hreinræktað franskt fólk. Þau eru eins og mormónarnir í Bandaríkjunum. Benzema og Ben Arfa eru tveir af bestu leikmönnum Frakklands og fjarvera þeirra í leikmannahópi franska liðsins vekur upp spurningar um hvort sú staðreynd að þeir séu upprunalega frá Norður-Afríku hafi skipt máli þegar leikmannahópurinn var valinn,“ sagði Cantona í samtali við The Guardian.  

„Það kemur mér því ekki á óvart að Deschamps hafi notað fjárkúgunarmálið sem tylliástæðu fyrir því að skilja Benzema eftir þegar hann valdi leikmannahópinn. Sér í lagi eftir að Manuel Valls [forsætisráðherra Frakklands] tjáði sig um að hann teldi að hann ætti ekki að leika fyrir Frakkland á meðan dómsmálið á hendur honum stendur yfir. Benzema og Ben Arfa eru af sama uppruna og það má vera að kynþáttafordómar hafi orðið til þessa að þeir voru ekki valdir,“ sagði Cantona enn fremur. 

Deschamps neitaði að bregðast við þessum ásökunum Cantona þegar The Guardian leitaði eftir viðbrögðum franska landsliðsþjálfarans við þessum þungu sökum sem fyrrum samherji hans hjá franska landsliðinu bar á hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert