Materazzi hrósar fjandvini sínum

Zidane stendur sig vel sem kanttspyrnustjóri Real Madrid.
Zidane stendur sig vel sem kanttspyrnustjóri Real Madrid. AFP

Fyrrverandi landsliðsmaður Ítalíu í knattspyrnu, Marco Materazzi, telur að Frakkinn Zinedine Zidane standi sig vel sem knattspyrnustjóri Real Madrid.

Zidane tók við sem knattspyrnustjóri Real Madrid í janúar eftir að Rafael Benítez var sagt upp störfum. Undir hans stjórn hefur Madridingum gengið vel en liðið mætir grönnum sínum í Atlético Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á morgun.

„Ég sagði í desember að ef Benítez yrði rekinn myndi Real Madrid komast í úrslitaleik Meistaradeildarinnar,“ sagði Materazzi í viðtali við ítalska fjölmiðla.

„Mér fannst Real Madrid þurfa alvöru knattspyrnustjóra eða alla vega einhvern sem myndi ekki skaða liðið frekar. Zidane er fínn stjóri og veldur engum skaða,“ bætti Materazzi við en hann og Zidane eru engir perluvinir. 

Zidane endaði feril sinn sem leikmaður á því að skalla Materazzi í bringuna í úrslitaleik Frakka og Ítala á heimsmeistaramótinu árið 2006. Zidane var rekinn af leikvelli, Ítalía vann og franski miðjumaðurinn lagði skóna á hilluna að keppni lokinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert