Real Madrid Evrópumeistari í ellefta sinn

Cristiano Ronaldo tryggði sigurinn með því að skora úr úrslitaspyrnunni.
Cristiano Ronaldo tryggði sigurinn með því að skora úr úrslitaspyrnunni. AFP

Real Madrid varð í kvöld Evrópumeistari eftir að hafa lagt nágranna sína í Atlético Madrid eftir vítaspyrnukeppni á San Siro í Mílanó í kvöld. Cristiano Ronaldo skoraði úr úrslitaspyrnunni.

Real Madrid byrjaði leikinn af krafti en strax á 6. mínútu leiksins tók Gareth Bale aukaspyrnu sem Jan Oblak varði meistaralega með löppunum. Tæplega tíu mínútum síðar komst liðið svo yfir með vafasömu marki.

Toni Kroos átti þá aukaspyrnu sem rataði beint á kollinn á Bale sem kom boltanum áfram á Sergio Ramos sem skoraði. Ramos virtist vera í rangstöðu þegar sendingin kemur en Mark Clattenburg, dómari leiksins, dæmi ekkert og var Real því komið yfir.

Það færðist töluverð ró yfir liðið eftir þetta og fór Atlético að sækja á meðan. Liðið skapaði sér nokkur færi en þó ekkert sem flokkast sem dauðafæri. Real Madrid því yfir í hálfleik en síðari hálfleikurinn var heldur betur líflegur.

Á 47. mínútu fékk Atlético vítaspyrnu. Fernando Torres féll þá í teignum eftir viðskipti sín við Pepe og benti því Clattenburg á punktinn. Antoine Griezmann fór á punktinn en þrumaði boltanum í slá.

Stefan Savic klúðraði dauðafæri nokkrum mínútum síðar eftir hornspyrnu og þá átti Saul Niguez frábært skot úr teignum en boltinn fór rétt framhjá. Real Madrid fékk nokkrar skyndisóknir í kjölfarið en markvörslur Oblak voru í heimsklassa.

Það dró til tíðinda hjá Atlético á 79. mínútu. JuanFran fékk boltann hægra megin við teiginn og kom honum fyrir. Þar var Yannick Ferreira-Carrasco mættur til þess að skófla knettinum í netið og staðan því jöfn.

Ekki var meira skorað eftir venjulegan leiktíma og var því farið með leikinn í framlengingu. Þar gerðist lítið markvert og því ljóst að úrslitin myndu ráðast eftir vítaspyrnukeppni. Það var skorað úr öllum spyrnum nema einni en það var fjórða spyrna Atlético. JuanFran skaut þá stöngina vinstra megin.

Cristiano Ronaldo tók fimmtu spyrnu Real Madrid og skoraði örugglega. Þetta er annar Evrópumeistaratitill hans með liðinu og um leið ellefti titill félagsins í sögunni. Magnað afrek hjá spænska félaginu.

Fylgst var gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Real Madrid er Evrópumeistari í ellefta sinn. Hetjuleg barátta hjá Atlético en ekki hafðist þetta í kvöld hjá þeim. Cristiano Ronaldo sem tryggir þetta, alveg eftir bókinni.

MAAAAARK!!! Atlético 3:5 Real Madrid. CRISTIANO RONALDO TRYGGIR ÞETTA FYRIR REAL MADRID!!!

STÖNGIN!!!! Atlético 3:4 Real Madrid. JuanFran setur boltann í stöngina vinstra megin. Er Cristiano Ronaldo að fara að tryggja þetta?

MAAAAARK!! Atlético 3:4 Real Madrid. Sergio Ramos með skot í hægra hornið. Það virðist alltaf vera sama hornið en Oblak er ekki alveg að átta sig á því.

MAAAARK!!! Atlético 3:3 Real Madrid. Saul Niguez skorar í vinstra hornið. Þetta er alltof auðvelt fyrir þá.

MAAAARK!! Atlético 2:3 Real Madrid. Gareth Bale með víti í hægra hornið. Markverðirnir ekki að líta neitt sérstaklega út hérna í byrjun.

MAAAAARK!! Atlético 2:2 Real Madrid. Gabi skorar örugglega líka. Þetta er svakaleg keppni.

MAAAAAARK!! Atlético 1:2 Real Madrid. Marcelo með frábæra spyrnu í hægra hornið. Oblak var of lengi í hornið. Góð spyrna samt hjá Marcelo.

MAAAAAARK!! Atlético 1:1 Real Madrid. Antoine Griezmann skorar örugglega líka. Þægilegt.

MAAAAARK!!! Atlético 0:1 Real Madrid. Lucas Vazquez skorar örugglega úr fyrstu spyrnu Real.

Vítaspyrnukeppni

120. Clattenburg flautar leikinn af. Þetta fer í vítaspyrnukeppni. Vá!

117. Það stefnir allt í vítaspyrnukeppni. Það er veisla!

105. Fyrri hálfleikur framlengingar er búinn. Það var lítið af marktækifærum, aðallega hálffæri sem ekkert varð úr. Bæði lið að gera sig líkleg, svo það verður fróðlðegt að sjá þennan síðari hálfleik.

91. Jæja, áfram heldur veislan.

Framlenging. Það er framlenging á San Siro! Leikurinn endar 1:1 og nú verður gaman að sjá hvort við fáum ekki nokkur mörk í framlengingunni. Það muna allir hvernig þetta endaði síðast en þá skoraði Real Madrid þrjú mörk og kláraði dæmið.

86. BALE MEÐ SKALLA! Luka Modric tók hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Bale en hann stangaði boltann yfir. Ótrúleg spenna á San Siro núna. Við erum að öllum líkindum að fá framlengingu.

79. MAAAAAAAAAAARK!!!!! Atlético Madrid 1:1 Real Madrid. YANNICK CARRASCO AÐ JAFNA!!!! JuanFran með fyrirgjöf frá hægri og þar mætir Carrasco og jafnar metin. Þetta er ótrúlegt!!!

78. HVERNIG ER REAL MADRID EKKI 2-0 YFIR?? Real fékk hvert dauðafærið á fætur öðru en þeim tókst bara ekki að nýta það. Gareth Bale fékk líklega tvö bestu færin en Oblak sá við honum.

70. JAN OBLAK MEÐ SVAKALEGA VÖRSLU!! Karim Benzema komst einn í gegn hægra megin og átti aðeins eftir að senda boltann framhjá Oblak í markinu en slóvenski markvörðurinn sá við honum.

59. SAUL NIGUEZ!! Góð fyrirgjöf frá vinstri á Saul sem tók hann á lofti með vinstri fæti en skotið fór rétt framhjá.

58. Koke með fínasta skot hægra megin við teiginn en það fer ofan á netið. Atlético sækir og sækir en nýtingin er slöpp.

54. SAVIC Í DAUÐAFÆRI!! Atlético fékk þarna dauðafæri eftir hornspyrnu. Savic skóflaði boltanum framhjá af stuttu færi. Hversu mörg færi þarf þetta lið til að jafna?

52. Dani Carvajal fer sárþjáður af velli og inn kemur brasilíski hægri bakvörðurinn Danilo. Hann kom frá Porto fyrir tímabilið.

47. GRIEZMANN ÞRUMAR Í SLÁ!! Hann á bara ekki að skora í dag, það er nokkuð ljóst. Hamraði í slá og svo út úr teignum. Real Madrid sleppur með skrekkinn þarna.

47. ATLÉTICO FÆR VÍTASPYRNU!!! Pepe hamraði Fernando Torres niður í teignum. Mark Clattenburg bendir á punktinn og svo spjaldar hann Keylor Navas fyrir tuð.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

Hálfleikur. Það er kominn hálfleikur í Mílanó. Real Madrid leiðir með einu marki en það var Sergio Ramos sem gerði það af stuttu færi eftir skallasendingu frá Gareth Bale. Atlético var mun betri aðilinn síðari hluta fyrri hálfleiks en tókst þó ekki að nýta sér það. Við bíðum spennt eftir síðari hálfleiknum!

43. GRIEZMANN! Fékk boltann rétt fyrir utan teiginn og lét svo vaða en boltinn fer rétt framhjá markinu.

35. Griezmann með magnað skot úr teignum en Keylor Navas ver. Það var hins vegar búið að flagga og ekki gilt. Atlético er að pressa mikið þessa stundina.

30. Atlético hefur aðeins verið að sækja síðustu mínútur. Markið hjá Ramos gerir það að verkum að Atlético þarf nauðsynlega að sækja meira og það mun opna leikinn. Spurning hvort við fáum annað mark fyrir hálfleik.

15. MAAAAAAAAAARK!!!! Atlético Madrid 0:1 Real Madrid. SERGIO RAMOS AÐ SKORA AFTUR Í ÚRSLITALEIKNUM!! Toni Kroos með frábæra aukaspyrnu inn í teig og þar var Gareth Bale mættur til þess að flikka boltanum aftur fyrir sig á Ramos sem potaði knettinum inn.

14. Það er mikill hiti í þessum leik. Ekki láta koma ykkur á óvart ef það fer á loft kannski 1-2 rauð spjöld eða svo. Vonandi fáum við eitthvað af mörkum líka.

6. GARETH BALE!!! Real Madrid fékk aukaspyrnu rétt fyrir utan teig. Bale hamraði knettinum á markið en Jan Oblak varði á einhvern ótrúlegan hátt með löppunum á línunni. Þarna skall hurð nærri hælum.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Það eru nokkrar mínútur í leik. Alicia Keys er að hita upp, það er ekki verra. Hún er auðvitað frábær söngkona.

0. Fréttin verður uppfærð jafn óðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert