„Nú er smá hvíld fyrir EM“

Cristiano Ronaldo fagnar í kvöld.
Cristiano Ronaldo fagnar í kvöld. AFP

Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid á Spáni, var í skýjunum eftir að hafa unnið Meistaradeildina með liðinu í kvöld eftir sigur á Atlético Madrid á San Siro-leikvanginum í Mílanó.

Real Madrid náði í ellefta Evrópumeistaratitil sinn í sögunni í kvöld en úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni. JuanFran klúðraði fjórðu spyrnu Atlético Madrid og tók því Ronaldo á sig það hlutverk að klára dæmið fyrir Real.

Það bar ekki mikið á Ronaldo í kvöld. Hann var afar slakur en kláraði leikinn þó með stæl. Hann hefur verið tæpur vegna meiðsla síðustu vikur en næst á dagskrá hjá honum er undirbúningur fyrir Evrópumótið í Frakklandi en liðið er með Íslandi í riðli.

„Vítaspyrnukeppni er alltaf happdrætti. Maður veit aldrei hvað gerist en við sýndum að við erum reyndir og skoruðum úr öllum spyrnunum. Frábært kvöld hjá okkur í alla staði,“ sagði Ronaldo.

„Núna er tímabilið að klárast og menn eru ekkert í neitt sérstöku standi. Við verðum að hvíla núna og svo er Evrópumótið fram undan,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert