Maradona bannar Messi að hætta

Diego Maradona.
Diego Maradona. AFP

Argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Maradona hefur sagt landa sínu, knattspyrnusnillingnum Lionel Messi, að hann megi ekki hætta með argentínska landsliðinu.

Messi gaf það út eftir tap Argentínu gegn Síle í úrslitaleik Suður-Ameríkubikarins í vítaspyrnukeppni að hann hygðist draga sig í hlé með landsliðinu.

Maradona er á öðru máli og segir það ekki mega gerast

„Þeir sem segja að hann eigi að hætta vilja ekki sjá að hvaða stórslysi argentínsk knattspyrna er orðin,” sagði Maradona.

„Messi verður að halda áfram,” sagði Maradona við La Nacion-dagblaðið sem BBC vitnar til í dag.

Maradona var sjálfur fyrirliði Argentínu sem vann heimsmeistaratitilinn árið 1986 og stýrði liðinu árið 2010 á HM. „Messi verður að halda áfram vegna þess að hann mun ná því að spila á HM 2018 í Rússlandi í ástandi til þess að verða heimsmeistari,” sagði Maradona.

„Þetta er erfið stund fyr­ir mig og liðið og það er erfitt að segja þetta en þetta er búið með arg­entínska landsliðinu,“ sagði Messi á dögunum en þetta var annað árið í röð sem liðið tapar gegn Síle í úrslitaleik í vítaspyrnukeppni í Ameríkubikarnum.

Messi tapaði einnig úr­slita­leik í keppn­inni árið 2007 og í úrslitaleik heimsmeistaramótsins gegn Þýskalandi í Brasilíu árið 2014.

Messi hefur á hinn bóginn unnið átta spænska meistaratitla með Barcelona og fjóra Meistaradeildartitla - en hann hefur leikið 112 leiki með arg­entínska landsliðinu og skorað í þeim 55 mörk.

Einu verðlaunin sem Messi hefur unnið með landsliði Argentínu er gull á Ólympíuleikunum árið 2008 í Beijing.

Messi.
Messi. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert