Samúel ekkert með Vålerenga í ár?

Samúel Kári Friðjónsson.
Samúel Kári Friðjónsson. Ljósmynd/vif.no

Samúel Kári Friðjónsson, knattspyrnumaðurinn ungi sem kom til liðs við Vålerenga í Noregi frá Reading á Englandi í síðasta mánuði, nær sennilega ekkert að spila með norska liðinu eftir að hann meiddist illa á æfingu um helgina.

Samúel meiddist á hné og á vef Vålerenga er sagt að meiðslin séu að öllum líkindum svo slæm að hann spili ekkert  á árinu en eftir er að fá niðurstöðu um hvort krossband hafi slitnað.

Hann er tvítugur og hefði verið löglegur með norska liðinu frá og með næsta föstudegi en þá er opnað fyrir félagaskiptin í Noregi á þessu sumri.

Samúel hefur spilað mikið með yngri landsliðum Íslands og var í byrjunarliði 21-árs landsliðsins í eina leik þess sem búinn er á þessu ári. Hann gerði samning við Vålerenga í júní til hálfs fjórða árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert