Sara í nítjánda sæti í Evrópu

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er í nítjánda sæti yfir bestu knattspyrnukonur Evrópu á tímabilinu 2015–2016. Þetta er í fyrsta skipti sem íslenskur leikmaður kemst á blað í þessu kjöri, hvort sem er í kvenna- eða karlaflokki.

Þjálfarar tólf bestu landsliða Evrópu og þeirra átta liða sem komust lengst í Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili tóku þátt í að tilnefna þær konur sem kosið verður á milli í kjöri UEFA og Samtaka evrópskra íþróttafjölmiðla í Mónakó í lok ágúst en þar verður knattspyrnukona Evrópu 2015–2016 útnefnd.

Sara varð í 19.–23. sæti af þeim 39 konum sem fengu atkvæði í kjörinu. Hún hefur leikið með sænsku meisturunum Rosengård undanfarin ár og varð meistari með liðinu síðasta haust ásamt því að komast með því í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Hún er nú gengin til liðs við þýska stórliðið Wolfsburg.

Þær tíu bestu sem valið stendur á milli eru eftirtaldar, í stafrófsröð:

Camille Abily (Lyon & Frakklandi)
Ada Hegerberg (Lyon & Noregi)
Amandine Henry (Lyon/Portland Thorns & Frakklandi)
Saki Kumagai (Lyon & Japan)
Eugenie Le Sommer (Lyon & Frakklandi)
Amel Majri (Lyon & Túnis)
Dszenifer Marozsán (Frankfurt/Lyon & Þýskalandi)
Louisa Nécib (Lyon & Frakklandi)
Alexandra Popp (Wolfsburg & Þýskalandi)
Wendie Renard (Lyon & Frakklandi)

Eins og sjá má eru Evrópumeistarar Lyon allsráðandi í kjörinu í ár en níu af tíu sem tilnefndar eru léku með liðinu á síðasta tímabili eða eru á leið þangað.

Amandine Henry, sem varð önnur í kjörinu í fyrra, er nýgengin til liðs við Dagnýju Brynjarsdóttur og samherja hennar í Portland Thorns í Bandaríkjunum.

Í næstu sætum á eftir komu eftirtaldar knattspyrnukonur, en þar er Sara heldur betur í góðum félagsskap:

11 Pernille Harder (Linköping & Danmörku)
12 Vivianne Miedema (Bayern München & Hollandi)
13 Ramona Bachmann (Wolfsburg & Sviss)
14 Kim Little (Melbourne City/Seattle Reign & Skotlandi)
15= Almuth Schult (Wolfsburg & Þýskalandi)
15= Caroline Seger (Paris Saint-Germain/Lyon & Svíþjóð)
17 Lara Dickenmann (Wolfsburg & Sviss)
18 Marta (Rosengård & Brasilíu)
19= Nilla Fischer (Wolfsburg & Svíþjóð)
19= Sara Björk Gunnarsdóttir (Rosengård/Wolfsburg & Íslandi)
19= Isabell Herlovsen (Lillestrøm & Noregi)
19= Irene Paredes (Athletic Bilgao/Paris Saint-Germain & Spáni)
19= Lotta Schelin (Lyon/Rosengård & Svíþjóð)

Heildarlistinn frá UEFA.

Íþróttafréttamenn víðs vegar að úr Evrópu munu kjósa á milli þeirra tíu sem urðu í efstu sætunum og það verður síðan upplýst í Mónakó 27. ágúst hver verður fyrir valinu sem sú besta í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert