Myndi telja Zlatan á að halda áfram

Zlatan hefur lagt landsliðsskóna á hilluna.
Zlatan hefur lagt landsliðsskóna á hilluna. AFP

Sænski knattspyrnuþjálfarinn Sven-Gör­an Eriks­son telur að Svíar ættu að reyna sitt besta til að fá Zlatan Ibrahimovic til að hætta við að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Zlatan tilkynnti að hans síðasti landsleikur yrði á Evrópumótinu í Frakklandi. Svíar féllu úr leik eftir riðlakeppnina og síðasti leikur Zlatans var því gegn Belgum í lokaumferð riðlakeppninnar en hann lék 116 landsleiki og skoraði í þeim 62 mörk; flest landsliðsmörk Svía frá upphafi.

„Auðvitað er þetta mikill missir. Zlatan hefur verið besti leikmaður í sögu Svíþjóðar Hann hefur átt afar farsælan feril og heldur núna til Manchester United,“ sagði Eriksson.

„Það má aldrei segja aldrei í fótbolta. Nýi landsliðsþjálfarinn þarf að byggja upp nýtt lið. Ég yrði hins vegar ekki hissa ef hann reyndi að telja Zlatan á að halda áfram í nokkur ár í viðbót. Ef ég væri þjálfari myndi ég reyna það,“ bætti Eiriksson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert