Eiður hættur hjá Molde

Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá Molde.
Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá Molde. Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen er hættur hjá norska úrvalsdeildarliðinu Molde FK. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um það hvort hann sé búinn að leggja skóna á hilluna. 

„Ég átti gott spjall við Ole Gunnar (Solskjær) og þetta er aðallega vegna þeirrar stöðu sem við erum í sem lið,“ sagði Eiður. Þegar hann horfir til lengri tíma þá sé rétti tímapunkturinn að stíga til hliðar núna. 

„Liðið er á skeiði mikilla breytinga og það eru margir leikmenn að koma upp. Ef við horfum á framtíðina og til lengri tíma held ég við getum verið sammála um að þar á ég ekki heima. Eftir síðasta leik fannst mér ég vera að taka tækifærið frá einhverjum öðrum sem ella fengi dýrmæta reynslu og þetta er sú ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði Eiður en Molde er í 9. sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég geri mér grein fyrir því að ég er nærri endalokum ferils míns en ég hef ekki ákveðið hvort ég sé alfarið hættur að spila fótbolta,“ sagði Eiður enn fremur.

„Ég notaði mikla orku í sumar á EM með Íslandi og var þá ekki tilbúinn að taka ákvörðun um að hætta. Ég ákvað að kom til baka og sjá hvernig mér myndi líða. Ég stend í mikilli þakkarskuld við Molde og er mjög þakklátur félaginu, Ole Gunnar og öllu starfsfólkinu. Þau léku stórt verk í að hjálpa mér að uppfylla æskudrauminn, að koma mér í form og gera mig tilbúinn fyrir Evrópumótið með Íslandi. En frá því að ég kom til baka þá hef ég fengið á tilfinninguna, eða ekki fundist það réttlætanlegt að spila og taka stöðuna frá öðrum,” sagði Eiður meðal annars.

Viðtalið við Eið í heild sinni má sjá hér að neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert