Hálfs árs bann vegna bleyðu-ummæla

Hope Solo.
Hope Solo. AFP

Bandaríska knattspyrnusambandið hefur sett Hope Solo, markvörð bandaríska kvennalandsliðsins, í sex mánaða leikbann. Ástæðan er ummæli hennar eftir leik Bandaríkjanna og Svíþjóðar í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna.

Svíar höfðu betur eftir vítaspyrnukeppni og eftir leikinn gagnrýndi Solo leikmenn sænska liðsins. „Við vorum að spila gegn fullt af bleyðum. Betra liðið vann ekki í dag,“ sagði Solo.

„Ummæli Hope Solo eftir leikinn gegn Svíum á Ólympíuleikunum voru óásættanleg og ekki í takt við þá hegðun sem við krefjumst af leikmönnum landsliðsins,“ sagði Sunil Gulati, forseti bandaríska knattspyrnusambandsins, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. Solo missir af tveimur síðustu landsleikjum Bandaríkjanna á árinu en mun á meðan eingöngu leika með félagsliði sínu, Seattle Reign.

„Ólympíuleikarnir snúast um heiðarlegan leik og virðingu. Við búumst við því að allir þátttakendur okkar hafi það undantekningarlaust í huga,“ bætti hann við.

„Allan feril minn hef ég aðeins viljað það besta fyrir liðið, fyrir leikmennina og kvennaknattspyrnuna í heild sinni,“ sagði Solo meðal annars í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni þar sem hún kveðst sorgmædd yfir ákvörðun knattspyrnusambandsins.

Solo getur snúið aftur í landsliðið í febrúar en þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún er dæmd í leikbann. Í janúar í fyrra var hún dæmd í 30 daga leikbann en hún hnakkreifst þá við lög­reglu­menn eft­ir að eig­inmaður henn­ar, Jerra­my Stevens fyrr­ver­andi NFL-leikmaður, var hand­tek­inn fyr­ir að aka und­ir áhrif­um vímu­efna. Solo var farþegi í bif­reiðinni.

Fyrri fréttir mbl.is:

Jafnbiturt og ummæli Ronaldo um Ísland

„Þær eru allar bleyður“

Solo með boltann í leiknum örlagaríka gegn Svíþjóð.
Solo með boltann í leiknum örlagaríka gegn Svíþjóð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert