Hólmar orðaður við Real Betis

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson. Ljósmynd/Kristján Bernburg

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, gæti verið á leið til Real Betis í spænsku 1. deildinni áður en lokað verður fyrir félagaskipti á Spáni í kvöld, samkvæmt frétt Fótbolta.net.

Hólmar, sem er leikmaður Noregsmeistara Rosenborgar, staðfesti það sjálfur við Fótbolta.net í dag að ákveðið félag væri á höttunum eftir honum, en vildi ekki segja til um hvort það væri Real Betis.

„Það er verið að hringja á milli og reyna að finna út úr þessu,“ sagði Hólmar.

Hólmar, sem er 26 ára gamall, er í íslenska landsliðshópnum sem mætir Úkraínu í undankeppni HM á mánudagskvöld. Hann hefur leikið með Rosenborg frá árinu 2014 en var áður hjá Bochum í Þýskalandi. Árin 2008-2011 var Hólmar á mála hjá West Ham á Englandi, en hann er uppalinn hjá HK.

Real Betis fékk á sig sex mörk í 6:2-tapi gegn Barcelona í fyrsta leik sínum í spænsku 1. deildinni á þessari leiktíð. Liðið gerði svo markalaust jafntefli við Deportivo La Coruna um síðustu helgi. Á síðustu leiktíð varð Real Betis í 10. sæti af 20 liðum deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert