Hátíð til heiðurs Ara Frey

Það var mikil stemmning í Pieve di Cento í gær.
Það var mikil stemmning í Pieve di Cento í gær. Ljósmynd/facebook

Það var mikið um dýrðir í ítalska bænum Pieve di Cento í Bologna í gær, en þar var slegið upp hátíð til heiðurs Ara Frey Skúlasyni, leikmanni belgíska liðsins Lokeren og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.  

Eins og greint hefur verið frá á mbl.is er Ari Freyr í dýrlingatölu í bænum og til marks um vinsældir hans hjá bæjarbúum mættu 2.000 manns á hátíðina í gær, en þar búa 7.000 manns. Hátíðargestir voru í bolum merktum Skúlasyni og einhverjir mættu með grímur með andliti Ara Freys.

Vinsældir Ara Freys hafa vaxið jafnt og þétt undanfarin tvö ár og náðu síðan hámarki í kjölfar góðs árangurs íslenska karlalandsliðins í knattspyrnu á Evrópumótinu í Frakklandi fyrr í sumar. Vinsæld­ir Ara Freys eru orðnar svo mikl­ar hjá bæj­ar­bú­um að Sergio Maccagn­ani, bæj­ar­stjóri í Pieve di Cento, hef­ur viðrað þá hug­mynd að gera Ara Frey að heiðurs­borg­ara í bæn­um. 

Leiða má lík­ur að því að vin­sæld­ir Ara Freys eigi rót sína að rekja til þess að föður­nafn hans, Skúla­son, hljóm­ar eins og ít­alska blóts­yrðið scula­son sem einnig er notað er þegar Ítal­ir lýsa undr­un eða hrifningu á einhverju.

Þá er ítalski íþróttavöruframleiðandinn Errea sem framleiðir búninga íslenska landsliðsins í knatspyrnu með höfuðstöðvar sínar í nágrenni Pieve di Cento sem gerir bæjarbúum hægt um vik að nálgast varning merktan íslenska landsliðinu merktum Sculason.  

Hér að neðan má sjá myndskeið af hátíðarhöldunum sem haldin voru til heiðurs Ara Frey í Pieve di Cento í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert