Íslendingalið Rosenborg norskur meistari

Hólmar Örn Eyjólfsson og Matthías Vilhjálmsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson og Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/rbk.no

Íslendingalið Rosenborg varð í dag norskur meistari í knattspyrnu eftir sigur 3:1 á erkifjendunum í Molde, liðinu sem Björn Bergmann Sigurðarson leikur með, en Björn skoraði einmitt mark liðsins í leiknum. 

Hólmar Örn Eyjólfsson og Guðmundur Þórarinsson léku báðir allan leikinn hjá Rosenborg, Hólmar í miðverði og Guðmundur á miðjunni, og þá kom Matthías Vilhjálmsson inn á í lið þeirra á 74. mínútu. Björn fór af velli á 81. mínútu.

Rosenborg undirstrikaði í dag yfirburði sína í norska fótboltanum en þrátt fyrir að fimm umferðir séu eftir er liðið meistari.

Rosenborg hefur 62 stig eftir 25 leiki og er 19 stigum á undan Brann og Odd sem eru í 2. til 3. sæti. Bæði lið eiga sex leiki eftir og jafnvel þótt þau vinni þá alla og Rosenborg tapi rest dugir það ekki til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert