Touré segir ekkert vit í ákvörðun FIFA

Yaya Touré var ráðgjafi fyrir starfshóp FIFA sem vann gegn …
Yaya Touré var ráðgjafi fyrir starfshóp FIFA sem vann gegn kynþáttaníði. AFP

Yaya Touré, miðjumaður Manchester City, segir „enga glóru“ í þeirri ákvörðun FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, að leggja niður sérstakan starfshóp sem vann gegn kynþáttaníði í knattspyrnuheiminum.

Touré var ráðgjafi hópsins og harmar ákvörðun FIFA. Í bréfi sem FIFA sendi til starfsfólks hópsins sagði að markmiðum hópsins væri náð.

„Ég hef upplifað kynþáttaníð alla mína ævi, bæði á götum úti og á knattspyrnuleikvöngum,“ sagði Touré í yfirlýsingu.

„Þegar ég fékk bréf frá FIFA þess efnis að starfshópurinn hefði verið lagður niður var ég afar vonsvikinn. Í bréfinu var farið yfir þá góðu vinnu sem hefur verið unnin samkvæmt uppástungum og ráðleggingum starfshópsins. Eftir að hafa mistekist í áratugi í baráttunni gegn kynþáttaníði, af hverju þá að hætta með eitthvað sem er að virka? Er knattspyrnusambandið of öruggt með sig núna þegar styttist í HM í Rússlandi?“ spurði Touré.

„Ég vona bara innilega að FIFA hafi hugsað dæmið til enda. Bréfið sem ég fékk sannfærir mig ekki um það. Það verða stuðningsmennirnir og leikmennirnir sem þjást ef að FIFA er að gera mistök,“ sagði Touré.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert