Eitt stig er ásættanleg niðurstaða

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var nokkuð sáttur með stigið …
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, var nokkuð sáttur með stigið gegn Celtic í kvöld. AFP

„Þetta var erfiður leikur fyrir okkur. Ég var ánægður með að sjá hvernig leikmenn liðsins brugðust við því að lenda þrisvar sinnum undir. Það er ekki auðvelt að skora þrjú mörk á útivelli og það er jákvætt að við skyldum ekki gefast upp,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, í samtali við BT Sport eftir 3:3 jafntefli liðsins gegn Celtic í annarri umferð í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Manchester City hafði haft betur í fyrstu tíu mótsleikjum Guardiola við stjórnvölin hjá liðinu og Celtic rauf þar af leiðandi sigurgöngu liðsins með jafnteflinu í kvöld. 

„Það var svekkjandi að fá á sig mark í upphafi beggja hálfleikanna, en svona er þetta. Þetta er erfiður útivöllur að spila og stemmingin er ávallt gríðarlega góð hérna. Við hefðum átt að tryggja okkur sigurinn og fengum færin til þess. Stig er ásættanleg útkoma og næsti leikur liðsins er gegn Barcelona sem er á toppi riðilsins. Það verður verðugt verkefni,“ sagði Guardiola um frammistöðu liðsins.

„Manchester City státar ekki af ríkri sögu í Meistaradeild Evrópu og það er verkefni okkar að skrá okkur á spjöld sögunnar hjá félaginu með því að fara langt í keppninni. Við verðum að læra af þessum leik og þessi leikur sýnir okkur að við verðum að leika af fullum krafti frá upphafi til enda í leikjum okkar í keppninni,“ sagði Guardiola enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert