Frábær frammistaða hjá liðinu

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Celtic, var brosmildur eftir jafntefli liðsins gegn …
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Celtic, var brosmildur eftir jafntefli liðsins gegn Manchester City í kvöld. AFP

„Við spiluðum gríðarlega vel í þessum leik og hefðum klárlega getað farið með sigur með sigur af hólmi. Við erum aftur á móti ánægðir með stigið og að vera komnir á blað í keppninni. Stuðningur áhorfenda var magnaður og stemmingin á vellinum hjálpaði leikmönnum liðsins að spila jafn vel og raun bar vitni,“ sagði Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Celtic, í samtali við BT Sport eftir 3:3 jafntefli liðsins gegn Manchester City í annarri umferð í C-riðli Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld. 

„Það er ekki sanngjarnt að gagnrýna liðið eftir þessi góðu úrslit, en það eru ávallt hlutir sem við getum bætt í frammistöðu okkar. Við vorum frábærir og lögðum mikla orku í leikinn. Pressan okkar gekk vel upp og við vorum ávallt líklegir til þess að skora í sóknaraðgerðum okkar,“ sagði Rodgers um spilamennsku Celtic. 

„Við höfum leikið vel heilt yfir á tímabilinu og við komum vel til baka í þessum leik eftir niðurlæginguna í Barcelona. Þetta var mögnuð frammistaða gegn feykilega sterku liði. Varnarleikur liðsins var til fyrirmyndar og liðið er að þróast í rétta átt. Þessi spilamennska mun veita liðinu sjálfstraust í næstu leikjum liðsins,“ sagði Rodgers enn fremur um leik liðsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert