„Vægast sagt erfitt“

Guðmundur Kristjánsson í leik með Start.
Guðmundur Kristjánsson í leik með Start. Ljósmynd/ikstart.no

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Kristjánsson hefur fengið að kynnast leiðinlegri hlið á atvinnumennskunni í Noregi á þessu keppnistímabili. Lið hans Start lenti í lygilegri eyðimerkurgöngu og vann ekki leik í norsku úrvalsdeildinni í meira en eitt ár. Start tókst þó loks að minnka blæðinguna og vinna Haugasund 1:0 á sunnudaginn. En væntanlega var það of seint og hætt við því að liðinu blæði út sem úrvalsdeildarliði enda höfðu liðið 448 dagar frá síðasta sigri í deildinni.

„Þessi sigur gerir kannski ekki mikið fyrir okkur þegar kemur að stöðu okkar í deildinni en hann gerir mikið fyrir móralinn í hópnum og almenna stemningu hjá leikmönnum,“ sagði Guðmundur þegar Morgunblaðið hafði samband við hann og sagðist ekki vera undrandi á því að fá símtal frá blaðamanni í ljósi þessarar tölfræði sem liðið þarf að horfast í augu við.

Afleitt gengi Start á tímabilinu kemur svo sem ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Eins og fleiri norsk íþróttafélög lenti það í fjárhagserfiðleikum og öflugir leikmenn voru seldir annað. Má þar nefna Matthías Vilhjálmsson, sem fór til Rosenborgar á miðju tímabili í fyrra og varð þar meistari. Start hafði raunar ekki unnið leik frá því að Matthías var leikmaður liðsins, en þá skellti Start liði Stabæk 4:1, sem þá var í öðru sæti deildarinnar. Hvort mikilvægi Matthíasar hafi verið svo mikið að það tók liðið ár að vinna næsta leik skal ósagt látið en Guðmundur segist skiljanlega ekki hafa búist við jafn miklum erfiðleikum og raun varð á.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert