„Mjög mikill metnaður“

Halldór Jón Sigurðsson, Donni, og Inga Huld Pálsdóttir, fulltrúi í …
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, og Inga Huld Pálsdóttir, fulltrúi í kvennaráði Þórs/KA, undirrita samninginn í dag að viðstöddum hópi leikmanna liðsins. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Halldór Jón Sigurðsson (Donni) verður næsti þjálfari kvennaliðs Þórs/KA á Akureyri í fótbolta, eins og greint var frá á mbl.is í gær. Hann skrifaði í dag undir samning við Akureyrarliðið til þriggja ára og þjálfar bæði meistara- og 2. flokk. Hann segir það mjög ögrandi verkefni að taka við liðinu.

Donni þjálfaði meistaraflokk karla hjá Þór síðustu tvær leiktíðir. Þegar hann hætti á dögunum sagði þjálfarinn að vegna fjöl­skyldu­ástæðna væri hann knú­inn til að flytja frá Ak­ur­eyri. „Við erum flutt á Sauðárkrók, ég þurfti að flytjast þangað af fjölskylduástæðum og stend við það. Ég bauð karlaliðinu að keyra á milli en það var ekki í boði hjá Þór,“ sagði Donni í samtali við blaðamann í dag.

Stjórnarmenn hjá Þór/KA eru hins vegar vanir því að þjálfarinn aki óvenjulangt á æfingar og í heimaleiki því Jóhann Kristinn Gunnarsson, sem þjálfaði lið Þórs/KA síðustu fimm ár, hefur allan þann tíma búið á Húsavík. „Það var því ekkert vandamál af þeirra hálfu þegar haft var samband við mig. Fjölskyldan mun búa á Sauðárkróki í óákveðinn tíma en það er aldrei að vita nema við flytjum aftur til Akureyrar. Það verður að minnsta kosti ekki strax en við sjáum til hvernig það verður eftir áramót. Eins og staðan er núna mun ég keyra á milli Sauðárkróks og Akureyrar á æfingar næsta sumar, en það gæti breyst.“

Donna stóð aðallega tvennt til boða varðandi þjálfun. „Annars vegar að taka við [karla]liði Tindastóls og hins vegar þetta. Mér fannst mjög erfitt að ákveða mig; Stólarnir eru mitt heimalið og mjög spennandi verkefni í gangi hjá þeim. Tindastóll er að fá góða aðstöðu og liðið vann 3. deildina með yfirburðum í sumar. Þór/KA lagði hins vegar hart að mér, það er mjög mikill metnaður hjá félaginu og mér fannst það meira spennandi verkefni akkúrat núna.“

Er það ögrandi verkefni að taka við Akureyrarliðinu?

„Já, það er gríðarlega ögrandi verkefni. Líklega má segja að liðið hafi pínulítið staðið í stað síðan það varð Íslandsmeistari [2012] og ég held að Jói þjálfari sé sammála mér í því; ég held hann hafi einmitt metið stöðuna þannig að stelpurnar þurfi nýja rödd eða aðra ögrun og þess vegna stigið til hliðar. Ég tel mig manninn í halda áfram með þetta verkefni sem farið var í og hefur verið gert svo vel síðustu ár,“ sagði Donni.

Gríðarlega sterkir erlendir leikmenn voru með Þór/KA í sumar. Er vitað hvort þeir verða áfram með liðinu?

„Það er í raun ekkert vitað með leikmannamál eða aðra þjálfara. Ég verð með aðstoðarþjálfara, markmannsþjálfara og styrktarþjálfara en ekkert af því er klárt. En eins og staðan er núna geri ég samt ráð fyrir því að sömu leikmenn verði með liðinu og léku með því í sumar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert