Viðar vann og Arnór Ingvi lagði upp mark

Arnór Ingvi Traustason í búningi Rapid Vín.
Arnór Ingvi Traustason í búningi Rapid Vín. AFP

Landsliðsmennirnir Arnór Ingvi Traustason og Viðar Örn Kjartansson voru báðir á ferðinni í Evrópudeildinni í knattspyrnu í kvöld.

Viðar og félagar í Maccabi Tel-Aviv unnu góðan útisigur á AZ Alkmaar, 2:1, og lék Viðar allan leikinn. Ezequiel Scarione kom Maccabi yfir á 24. mínútu en heimamenn jöfnuðu metin á 72. mínútu. Þá var enn tími fyrir Eyal Golasa til að skora sigurmarkið.

Maccabi náði þar með í sín fyrstu stig í D-riðli en nú er fyrri helmingi riðlakeppninnar lokið. Í hinum leik riðilsins vann Zenit St. Pétursborg 2:1-útsigur á Dundalk, sem sló FH út í forkeppninni. Dundalk var yfir í leiknum þar til á 71. mínútu.

Zenit er því með 9 stig, Dundalk 4, Maccabi 3 og AZ 1.

Í F-riðli eru Arnór Ingvi og félagar í Rapid Vín með 4 stig líkt og Sassuolo, en liðið gerðu 1:1-jafntefli í Austurríki í kvöld. Genk er efst í riðlinum með 6 stig en Athletic Bilbao er með 3, eftir 2:0-sigur Genk á Spánverjunum í kvöld.

Arnór Ingvi lagði upp mark Rapid Vín á 7. mínútu en gestirnir jöfnuðu metin með sjálfsmarki á 66. mínútu. Arnóri Ingva var svo skipt af velli á 73. mínútu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert