Ronaldo er öllu vanur

Christiano Ronaldo hefur ekki leikið eins og hann best getur …
Christiano Ronaldo hefur ekki leikið eins og hann best getur í haust. AFP

Zinedine Zidane, knattspyrnustjóri Real Madrid, er viss um að helsta stjarna liðsins, Cristiano Ronaldo, muni ná sér aftur á strik fljótlega.

Ronaldo hefur ekki leikið eins og hann best getur í haust og hafa stuðningsmenn Madrídarliðsins baulað á kappann. Zidane sagði að það væri nú ekki stórmál; þeir hefðu einnig baulað á hann þegar hann lék með Madrídingum.

Ronaldo hefur skorað tvö mörk í sex leikjum á nýhafinni leiktíð. Áhorfendur bauluðu á hann í leik um helgina, en Ronaldo reyndi ellefu skot að marki án árangurs.

„Ég skil ekki hvers vegna þeir bauluðu á Ronaldo, þeir beindu einnig óánægju sinni að mér,“ sagði Zidane á blaðamannafundi í morgun.

Franski knattspyrnustjórinn bætti því við að heimavöllur Real Madrid væri sérstakur staður. „Santiago Bernabeu er sérstakur staður og stuðningsmennirnir eru ákaflega kröfuharðir. Ronaldo er öllu vanur.“

Zidane hefur engar áhyggjur af því að Ronaldo sé ekki að skora jafn mörg mörk og áður. „Hann er allavega að komast í færi. Hann mun enda á því að skora fullt af mörkum, ég hef engar áhyggjur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert