Elías Már innsiglaði sigur í Íslendingaslag

Elías Már fagnar marki með Gautaborg.
Elías Már fagnar marki með Gautaborg. Ljósmynd/ifkgoteborg.se

Elías Már Ómarsson heldur áfram að slá í gegn hjá IFK Gautaborg, en hann var á skotskónum gegn Sundsvall í Íslendingaslag í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.

Elías skoraði þriðja mark Gautaborgar í 3:1 sigri, en hann spilaði allan leikinn með liðinu. Þetta er sjötta mark hans í ellefu leikjum, en Elías er á láni frá Vålerenga í Noregi. Hjálmar Jónsson sat allan tímann á bekknum hjá Gautaborg, sem er í fjórða sæti deildarinnar

Kristinn Steindórsson kom inná sem varamaður hjá Sundsvall á 89. mínútu og er það í fyrsta sinn sem hann kemur við sögu síðan 1. október vegna meiðsla. Sundsvall er í þrettánda sæti af sextán liðum.

Þá spilaði Haukur Heiðar Hauksson allan leikinn fyrir AIK sem lagði Häcken, 2:1. AIK er í öðru sæti deildarinnar með 56 stig, sjö stigum frá Malmö sem tryggði sér sænska meistaratitilinn í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert