Kenndi Íslendingum fótbolta og nú börnum að lesa

Lars Lagerbäck hefur sjálfur mjög gaman af því að lesa …
Lars Lagerbäck hefur sjálfur mjög gaman af því að lesa bækur, en vinnan hefur oft truflað lesturinn. mbl.is/Golli

„Hann kenndi Íslendingum að vinna fótboltaleiki. Nú á Lars Lagerbäck að hjálpa sænskum stjórnvöldum að fá fleiri börn til að læra að lesa.“

Svona hefst grein sænska blaðsins Aftonbladet þar sem sagt er frá því að Lars Lagerbäck, fyrrverandi þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu, sé í sérstökum starfshópi sem skipaður hefur verið af stjórnvöldum til að efla lestrarkunnáttu barna í Svíþjóð.

Hópurinn, sem skipaður er fólki úr ýmsum áttum, á að kortleggja stöðuna hvað lestrarkunnáttu barna varðar, og leggja fram tillögur um hvernig hægt verði að auka áhuga barna á lestri. Lagerbäck starfar nú sem ráðgjafi sænska karlalandsliðsins í fótbolta en vill glaður leggja sitt af mörkum í lestrarátakinu.

„Þetta er lofsvert framtak, ef hægt er að orða það þannig. Ef við getum einhvern veginn hvatt fólk til að lesa meira þá er það jákvætt. Það er gaman að taka þátt í einhverju svona. Ég fæ að sjá hvernig þetta er og hverju þetta getur skilað,“ sagði Lagerbäck, sem sjálfur las mikið af bókum Enid Blyton sem barn.

„Í dag er ég alæta. Því miður hef ég þurft að lesa með nokkrum hléum vegna vinnu minnar, en ég les mikið og kann best við bækur sem hafa sögulega tengingu, hvort sem þær eru sannar eða skáldskapur,“ sagði Lagerbäck.

Þú kenndir Íslendingum að spila fótbolta en núna áttu að fá börn til að lesa meira. Hver er munurinn, spyr blaðamaður Aftonbladet:

„Þetta er gjörólíkur hlutur. Það að kenna fólki að lesa er eitthvað allt annað, og gerist fyrst og fremst í skólanum og á heimilum,“ sagði Lagerbäck.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert