Viðar Örn dýrari en Ljungberg

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Malmö seldi Viðar Örn Kjartansson til ísraelska liðsins Maccabi Tel-Aviv á 41 milljónir sænskra króna sem jafngildir 522 milljónum íslenskra króna. Sænska blaðið Sydsvenskan greinir frá þessu í dag.

Viðar Örn er þar með fimmti dýrasti leikmaðurinn í sögu sænsku úrvalsdeildarinnar og skýtur mönnum eins og Fredrik Ljungberg fyrrverandi leikmanni Arsenal og Jesper Blomqvist sem um tíma lék með Manchester United fyrir aftan sig.

Sá dýrasti er Zlatan Imbrahimovic en Malmö seldi hann til Ajax fyrir 82,5 milljónir sænskra króna sem jafngildir rúmunum 1 milljarði íslenskra króna.

„Ég vildi helst vera áfram en það var of mikil áhætta að segja nei við svona góðu boði og það var rétt hjá stjórn félagsins að selja mig,“ segir Viðar Örn við Sydsvenskan.

Viðar Örn lék fyrstu 20 leikina með Malmö á leiktíðinni og skoraði í þeim 14 mörk áður en hann var seldur til Maccabi Tel-Aviv. Hann er enn markahæstur í sænsku úrvalsdeildinni en Malmö tryggði sér í fyrrakvöld meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert