Spilar aftur fyrir Chapecoense

Helio Neto mun spila fótbolta á ný.
Helio Neto mun spila fótbolta á ný. AFP

76 manns fórust í flugslysi skammt fyrir utan kólumbísku borgina Medellín á dögunum en leikmenn og forráðamenn brasilíska knattspyrnufélagsins Chapecoense voru um borð. Aðeins þrír leikmenn sem voru um borð lifðu af en einn þeirra getur leikið knattspyrnu á ný.

Liðið var á leið til Kólumbíu að leika í úrslitum Copa Sudamericana gegn Atletico Nacional en flugvélin hrapaði áður en hún komst á leiðarenda.

Þrír leikmenn lifðu slysið af en einn þeirra getur leikið knattspyrnu á ný. Leikmaðurinn sem um ræðir er Helio Neto en hann er 31 árs gamall varnarmaður. Faðir leikmannsins staðfesti á Facebook-síðu sinni að Neto spilar aftur fyrir Chapecoense.

„Sonur minn verður betri með hverjum deginum. Hann fór í aðgerð á fæti og læknarnir eru bjartsýnir á að hann spili fótbolta aftur,“ sagði Helam Marinho Zampier, faðir Neto.

Knattspyrnuheimurinn hefur sameinast í kjölfar slyssins en leikmenn á borð við Ronaldinho og Juan Roman Riquelme hafa boðist til að leika með liðinu auk þess sem mörg félög ætla að veita félaginu fjárstuðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert